Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:12:16 (720)

1996-10-31 15:12:16# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst út af spurningu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur í sambandi við Barentshafið, þá höfum við haldið áfram viðræðum og áþreifingum í því máli, en því miður hafa þar ekki náðst samningar. Það hefur komið skýrt fram af okkar hálfu að við viljum leitast við að ná samningum um veiðar okkar í Barentshafi og þeirri viðleitni verður haldið áfram.

Það liggur líka alveg ljóst fyrir að það er uppi ágreiningur milli Íslendinga og Norðmanna í sambandi við Svalbarðasvæðið. Sá ágreiningur er skýr og það hefur ekkert þokast neitt til á milli aðila í þeim efnum. Það eru engar þjóðir sem hafa viðurkennt rétt Norðmanna á þessu svæði nema það var gerður samningur á milli Norðmanna og Kanada á sínum tíma. Við höfum haldið uppi andmælum við Kanadamenn út af því máli og sá samningur hefur ekki enn verið staðfestur af kanadíska þinginu þótt því hafi hins vegar ekki verið lofað að það geti ekki gerst. Það er hins vegar staðreynd að hann hefur enn ekki verið staðfestur og við höfum haldið því mjög á lofti í viðræðum okkar við Kanadamenn.

Út af hvalamálinu, þá er það rétt að það er í höndum þeirrar nefndar sem hefur það mál til umfjöllunar hvaða áhrif hvalveiðar á nýjan leik muni hafa á okkar viðskiptahagsmuni. Það er í sjálfu sér hægt að fara í margvíslegar athuganir á því sviði en ég hef miklar efasemdir um að þar verði einhlít niðurstaða og ég sé í sjálfu sér ekki að það þjóni miklum tilgangi. Það er ljóst að það mun hafa einhver áhrif en það sem menn verða að meta er hvort það sé áhættunnar virði. Ég tel að svo sé því að þarna eru svo miklir hagsmunir í húfi að öðru leyti.