Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:15:32 (722)

1996-10-31 15:15:32# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engin frekari svör í þessu máli. Það hefur vissulega verið rætt við Norðmenn um rækjuveiðarnar. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort við sendum þetta mál til alþjóðadómstóls. Það höfum við fullan rétt til að gera og við höfum haldið því að Norðmönnum að við kunnum að gera það. Hins vegar hefur ekki verið tekin um það nein endanleg ákvörðun hvort það verður gert eður ei. Það er enn þá opið og verður opið þangað til ásættanleg niðurstaða fæst í málum. En við hljótum að halda uppi þeim rétti okkar að skjóta slíku máli til þar til kvadds úrskurðaraðila sem er fyrir hendi ef við kjósum að reka það mál. Það mál verður umfangsmikið og það mun taka alllangan tíma og það þarf allmikinn mannafla til að reka slíkt mál. Það hlýtur að vera matsatriði á hverjum tíma hvort við förum út í það. Við höfum ekki viljað gera það á þessu stigi vegna þess að við höfum vonast til þess að hægt væri að leysa ágreiningsmálin með samningum milli Íslendinga og Norðmanna.