Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:39:11 (725)

1996-10-31 15:39:11# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:39]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi þetta alveg nákvæmlega eins með þessi sameiningartilboð frá Alþfl. og hæstv. utanrrh. og að Framsfl. hljóti núna að fara að hefja viðræður við Alþfl. um sameiningu. Þannig fóru þessar umræður fram bæði af hálfu talsmanns Alþfl. hér, Össurar Skarphéðinssonar, og formanns hans, Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Hins vegar er rangt hjá hæstv. utanrrh. að alþýðubandalagsmenn séu eitthvað að fjandskapast út í NATO og alþýðubandalagsmenn séu eitthvað að fjandskapast út í Evrópusambandið, ESB. Málið liggur ekkert svona. Það sem gerðist áðan í umræðum um skýrslu utanrrh. var það að hæstv. ráðherra sagði: ,,Það er ekki meiningin að gera þetta að ofurríki, eða bandaríkjum Evrópu.`` Hann sagði: ,,Það verður nú enginn skortur á upplýsingum og samvinnu um þá hluti frá þessari stofnun`` og hann ýjar að því að það sé verið að breyta fiskveiðistefnunni. Hann er með öðrum orðum að reyna að fegra þetta land eins og hann getur. Hann er að fækka spurningum um Evrópusambandið. Hann er að lýsa því jákvæðar en framsóknarmenn hafa gert áður og hann er að setja umræðurnar um þessi mál í nýtt ljós og hann er að færa sig upp að Alþfl. og hann er með Alþfl. að setja aðildina að Evrópusambandinu á dagskrá íslenskra stjórnmála hvað svo sem hæstv. forsrh. segir. Undir þessu situr hæstv. félmrh. og, með leyfi forseta, þegir. Það hefðu einhvern tímann þótt tíðindi. Þetta er veruleikinn sem blasir við. Það er enginn með útúrsnúninga í þessu máli annar en hæstv. utanrrh. Við þurfum enga óvini í þessum efnum en það er greinilegt að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. á núna einn óvin og hann ætlar að halda áfram að reyna að hafa það þannig eins og hann mögulega getur, það er Alþb., það er eini aðilinn sem hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., telur ástæðu til að ráðast á og gagnrýna harkalega hér í umræðum. Öðruvísi mér áður brá með Framsfl. þegar hann var vinstri miðflokkur en er núna orðinn hægri miðflokkur.