Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:41:22 (726)

1996-10-31 15:41:22# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við hv. þm. um árásir á aðra flokka. Ég hef ekki ráðist mikið á Alþb. Ég bið hv. þm. að líta í eigin barm og rifja upp hvernig hann hefur rætt um Framsfl. í gegnum tíðina. En það er mér að meinalausu. Hann má halda því áfram ef það gerir honum eitthvað gott.

En ég spyr hv. þm.: Hvað er rangt í þessari ræðu? Hvar er eitthvað sagt sem er beinlínis rangt? Hann talar um að ég gefi það í skyn að verið sé að breyta sjávarútvegsstefnunni. Hvað segir í ræðunni, með leyfi forseta: ,,Bretar hafa ákveðið að taka þetta mál upp á vettvangi ríkjaráðstefnunnar en hér skal ekki lagt mat á hvort þeim muni takast að ná fram breytingum á þeim vettvangi.`` Er þetta rangt? Er verið að reyna að villa um fyrir fólki? Ég get út af fyrir sig bætt því við að ég á ekki von á að Bretar nái miklu fram í þessum efnum. Ég hefði í sjálfu sér getað sagt það þarna. En það stendur: ,,Hafa verður í huga að senn líður að heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar og því verki verður að vera lokið fyrir árslok 2002.`` Þar með er gefið í skyn að þetta mál verði líklega tekið upp í sambandi við heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Mér finnst það því vera furðulegt af hv. þm. að halda því fram að ég sé að reyna að fegra Evrópusambandið. Ég reyni að lýsa því eins og ég sé það og ég held að flestir sjái það nema þá helst Alþb. sem gengur illa að sjá hlutina í réttu ljósi. Ég get ekkert við því gert.