Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:43:19 (727)

1996-10-31 15:43:19# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:43]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og sagt var stundum áður úr þessum ræðustól að ég skil vel að hæstv. utanrrh. geti ekkert í því gert í hvaða ljósi ég sé málin. Mér finnst satt að segja umræðan ekki á háu plani ef hún á að þróast í þessa átt. Nei, vandinn er sá að hér höfum við flokk í sæti utanrrh. sem sagði X-B, ekki EB. Enginn flokkur var harðari á móti Evrópusambandinu í umræðunni um Evrópskt efnahagssvæði en Framsfl. Enginn flokkur hafði hærra um stjórnarskrárbrot í þeirri umræðu en Framsfl. Það muna það allir sem eru hér í salnum, það þýðir ekkert að neita því, hæstv. ráðherra.

Núna er staðan hins vegar þannig að formaður þessa sama flokks sem flutti flestar ræður um stjórnarskrárbrot flytur nú ræðu sem utanrrh. og í dregur eingöngu fram hinar jákvæðu hliðar sem hann telur að hugsanlega séu á Evrópusambandinu. Það er veruleikinn á bls. 3 í ræðu hans. Það eru ekki bara við, hinir vondu alþýðubandalagsmenn, sem skynjum þetta svona heldur skynja hv. þm. Alþfl. þetta sem stórpólitísk tíðindi og kvitta fyrir það hver á fætur öðrum. Það er augljóst mál að hér eru fréttir á ferðinni þó að hæstv. utanrrh. reyni nú í lokin að klóra yfir það þá tekst það ekki. Veruleikinn er þessi: Hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. hefur ásamt formanni Alþfl. sett aðildina að Evrópusambandinu á dagskrá íslenskra stjórnmála.