Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:22:16 (755)

1996-11-04 16:22:16# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:16]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á því, vegna orða sem hér hafa fallið í umræðunni, að ég held að gætt hafi verið jákvæðrar mismununar eða forgangs varðandi konur á mælendaskrá í þessari umræðu og ég fagna því. Mér finnst það sjálfsagt. En ég held að þeir sem eiga eftir að tala hafi beðið um orðið í upphafi þessarar umræðu. Það vill svo til að sá sem hér talar hefur nokkur afskipti haft af þessum málaflokki sem er til umræðu í þessari utandagskrárumræðu þau fáu ár sem hann hefur setið á þingi og komið fram með ýmsar tillögur. Mér finnst að þessi mál fái í raun allt of litla athygli í þinginu og þakka því að þau eru komin hér á dagskrá utan dagskrár þó mér finnist uppsetning málsins kannski svolítið óskýr --- staða jafnréttismála. Það býður upp á mjög almenna umræðu um málaflokkinn. Hér hefur þegar verið vakin athygli á ýmsum merkum þáttum, þar á meðal að talsmenn Sjálfstfl. halda að flokkurinn hafi brugðið á alveg sérstakt ráð með því að taka jafnréttismál loksins fyrir á sínu flokksþingi og sýnt þar frumkvæði umfram aðra flokka. Ég ráðlegg annars ágætum talsmönnum Sjálfstfl. að fara yfir söguna svolítið betur í þessum málum áður en þeir endurtaka slíkt. Það er hins vegar mikið ánægjuefni að stærsti þingflokkurinn og stærsti stjórnmálaflokkur í landinu skuli hafa tekið þessi mál á dagskrá með þeim hætti sem Sjálfstfl. gerði. Ég fagna því eindregið og vona að þetta verði til þess að mál sem Sjálfstfl. fær ráðið í þessum efnum endurspegli það í verki. Í rauninni eru það verkin sem spurt er um í þessum málum þó að engan veginn sé þar með sagt að ekki geti þurft að að breyta lögum og styrkja löggjöf á mörgum sviðum.

Ég vil minna á það vegna þess að verið er að ræða um að alþjóðasáttmála þurfi að nota til að styrkja okkar stöðu í þessum efnum að mjög þýðingarmikið er að gera það og gæta þess að við fylgjum alþjóðlegri réttarþróun og þess sem vel er gert á erlendri grund. Það hefur áður verið reynt á Alþingi að fylgja þessum málum eftir. Sá sem hér talar flutti árið 1986 þingmál um það að gerð yrði úttekt á mismunun gagnvart konum hérlendis með sérstöku tilliti til þá nýsamþykkts alþjóðasáttmála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og gert ráð fyrir því sundurliðað á hverju þar verði tekið. Þessi tillaga fékk ekki byr í þinginu. Og satt að segja mótbyr úr ólíklegustu áttum sem leiddi til blaðaskrifa um efnið, sem ég ætla ekki að fara út í sérstaklega. En þarna hafa menn lýsandi dæmi um að annaðhvort er ekki sama hvaðan gott kemur eða hitt að það er ekki skilningur á því, eins og þyrfti að vera, að átta sig á okkar stöðu, í þessu tilviki mismunun gagnvart konum hérlendis. Nú er þessi sáttmáli allt í einu að verða verulegt umræðuefni. Ja, betra er seint en aldrei, og kominn út í sérútgáfu frá hæstv. félmrh. En ætli staðan væri ekki önnur nú ef Alþingi hefði haft fyrir því 1986 að samþykkja þá tillögu sem þá var uppi?

Ég minni á að ég flutti árið 1987, ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, tillögu um það að breytt yrði lögum um jafnan rétt kvenna og karla með tilliti til þess að ná fram sem jafnastri stöðu fulltrúa kynja í stjórnum, nefndum og ráðum, miðað við 40% regluna sem lágmark. Það er engin tilviljun að það eru ekki fleiri flm. með þessari tillögu. Það var leitað víðar fanga um samþykki. Nú koma menn með það sem gullvæga reglu að þess þurfi að gæta að ná þessu fram. Ég minni á flutning tillagna varðandi jafnréttisráðgjafa og margt fleira sem ég hef flutt inn í þingið um þessi efni. Ég held að fyllsta ástæða sé til að taka lög um jafnan rétt karla og kvenna til endurskoðunar í ljósi réttarþróunar og í ljósi þess að síðasta löggjöfin um þessi efni var ekki heildarendurskoðuð frá grunni. Það var ekki lagt upp með hana þannig þó það tækist að koma þar inn jákvæðum atriðum.

Á morgun er til umræðu sérstök tillaga um umboðsmann jafnréttismála og þá gefst, virðulegur forseti, væntanlega tækifæri til að ræða þessi mál frekar. En ég ítreka að það þarf að stilla saman alla krafta, alla krafta, til að þau mannréttindaákvæði sem í orði voru tryggð í stjórnarskránni varðandi jafnstöðu kynjanna nái fram í reynd.