Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:27:51 (756)

1996-11-04 16:27:51# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:27]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ein af þeim spurningum sem hv. frummælandi bar upp við hæstv. ráðherra var hvort hann væri ánægður með stöðu mála. Þetta er spurning sem við getum öll spurt okkur. Erum við ánægð með stöðu mála? Auðvitað er enginn ánægður með stöðu mála. En það er athyglisvert að það er heldur enginn sem hefur lausnarorðið í þeirri umræðu. (Gripið fram í: Aðgerðir.) Ekki hef ég heyrt það, því miður. Það hefur komið fram hér að réttindi kvenna séu nokkuð vel tryggð í lögum en þar þarf þó að bæta um, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni. En það er ekki aðalatriðið að mínu mati. Það vantar þessa hugsun inn í þjóðarsálina að vilja jafnrétti. Þjóðarsálin er nefnilega dálítil karlremba í raun. Það er von mín að þær kannanir sem hafa sýnt (HG: Hvaða skepna er þessi þjóðarsál?) að ungir karlmenn eru jafnréttissinnaðri en þeir eldri sé eitt af því sem við getum bundið ákveðnar vonir við og trúað að muni breyta okkar þjóðfélagi. Eitt af því, sem er áreiðanlega ein af ástæðum þess að við Íslendingar erum ekki komnir lengra á þessari braut en raun ber vitni, er að við höfum verið hér með skólakerfi sem hefur verið fjölskyldunni ákaflega óhagstætt og lítið vinsamlegt. Við höfum verið með skólakerfi og þannig leikskólafyrirkomulag að foreldrar, og þá sérstaklega mæður, hafa verið að nota drjúgan hluta dagsins í að flytja börn á milli staða. Og hvers vegna ekki karlar mætti þá kannski spyrja? Sannleikurinn er sá að konur eru samviskusamari en karlar. Þær hafa tekið á sig þessa ábyrgð í miklu, miklu meira mæli en karlarnir. Það er þessi fjölskylduábyrgð sem við erum að tala um og hefur því miður verið fyrst og fremst á höndum kvenna.

Það hefur verið talað um stjórnmálaflokkana í þessu sambandi og full ástæða til. Þar hefur svo sem verið að gerast ýmislegt jákvætt, alla vega vil ég meina það með minn flokk. Þar hafa orðið miklar breytingar. Það var þannig þegar ég kom í þingflokkinn fyrir níu árum síðan, þá hafði ekki verið þar kona í yfir 30 ár, en við erum þó orðnar þrjár. Þó að það sé ekki stórkostlegur árangur, þá er það alltaf spor í rétta átt.

Við síðustu ríkisstjórnarmyndun var kona skipuð í ráðherraembætti af mínum flokki eins og alþjóð veit og önnur kona kosin formaður þingflokks og er ekki hægt að segja annað en það hafi verið rétt spor í jafnréttismálum. En það þarf að taka miklu stærri skref og það vona ég að verði gert. En ég vil líka segja að mér finnst það áhyggjuefni að konur hafa ekki nægilega mikinn áhuga á stjórnmálum. Það er mín skoðun, því miður. Og mér finnst svo sjálfsagt að hafa áhuga á stjórnmálum, eins sjálfsagt og það að þurfa að borða og sofa. En einhvern veginn er það nú svo að konur hafa minni áhuga á stjórnmálum heldur en karlar og það er stundum eins og manni finnist að það séu ekki alveg venjulegar konur sem eru í stjórnmálum. Maður heyrir það úti í þjóðfélaginu að það sé nánast eitthvað óeðlilegt að hafa svona mikinn áhuga á stjórnmálum að konur leggi líf sitt í það að sinna þeim málaflokki.

Ég vil segja að síðustu, hæstv. forseti, vegna þess að hæstv. heilbrrh. gat ekki verið hér viðstaddur, að það hefur sýnt sig að í hennar ráðuneyti hafa konur verið skipaðar í nefndir meira en gengur og gerist í öðrum ráðuneytum og í nefndum sem skipaðar eru af hæstv. heilbrrh. eru yfir 40% konur.