Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:43:16 (759)

1996-11-04 16:43:16# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:43]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að standa hér og ræða þá staðreynd að helmingur landsmanna nýtur ekki þeirra réttinda og jafnréttis sem lög gera ráð fyrir, en þó eru það staðreyndir. Hér hafa verið ræddar margvíslegar aðgerðir með mörgum og ágætum orðum, aðgerðir sem stjórnvöld geta farið út í til þess að ná fram þeim vilja sem stendur til í lögum. Jafnréttisáætlun er þar á meðal. Við höfum rætt hér launamál, ráðningar í stöður. Jafnvel hefur heyrst hér á þingi að það mætti beita lögum eða aðgerðum til þess að rétta hlut kvenna í fjölmiðlum. Ég ætla ekki að gera þetta að mínu umtalsefni því að margir hafa farið um það ágætum orðum og ekki ætla ég heldur lengi að tala um það að vel má spyrja okkur stjórnmálamenn, sem segjumst vera talandi tákn hins pólitíska vilja, hvort við höfum staðið okkur svo vel í okkar störfum í þinginu að koma konum til áhrifa í nefndum og ráðum.

[16:45]

Í Framsfl. settum við okkur í stjórn þingflokksins það að ná 30% kvenna í hverja nefnd, (Gripið fram í: 40%.) 40%, takk fyrir að leiðrétta mig með það. Ég veit að að sjálfsögðu hafa aðrir flokkar, án þess að ég sé að telja þá upp, gert það en þarna er tækifæri til þess að sýna pólitískan vilja okkar í verki á þingi. Ég hlýt þó að gera annað að meginatriði þótt tíminn leyfi ekki að fara um það mörgum orðum. Það er hið rótgróna viðhorf, hið rótgróna misrétti sem liggur í viðhorfi almennings, í viðhorfi fólks til kynjanna. Í fjölskyldulífi, á heimilum, í leikjum, í íþróttum, í skólum og á mannamótum kemur fram rótgróin afstaða til kynjanna sem vitnar um misrétti. Við getum sett lög, við getum barið fram stjórnvaldsaðgerðir en ef við náum ekki að hrífa fólkið, þjóðina, foreldrana með okkur þá vinnst þetta afar seint. Ég er ekki að gera lítið úr því frumkvæði sem stjórnvaldsaðgerðir hafa en við verðum með einum eða öðrum hætti að ná til fólksins í landinu og að hver einasta fjölskylda, hvert einasta heimili taki þátt í þessari viðhorfsbreytingu.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal. Þetta verður löng barátta en við eigum að leggja í hana. Við höfum svo sannarlega til þess tæki á þeim fjölmiðlatímum sem við búum nú á og þeirri tækni sem hægt er að beita í fræðslu og áhrifum í jafnlitlu og gagnsæju þjóðfélagi og við búum nú við.

Að lokum tek ég undir þakkir annarra þingmanna til málshefjanda fyrir að hreyfa þessu þarfa máli og er tilbúinn til þess að vinna með þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls að því að berjast fyrir þessu mjög svo brýna réttlætismáli meðal þjóðarinnar.