Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 17:02:13 (762)

1996-11-04 17:02:13# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[17:02]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið áður en umræðunni lýkur. Það kom mér nokkuð á óvart að málshefjandi í umræðunni, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, skyldi nota síðari ræðu sína til að veitast að mínu máli að því leyti að ég hafi verið eitthvað argur yfir því að nú væri búið að prenta og gefa út í sérprenti alþjóðasamninginn um afnám mismununar gagnvart konum. Hv. þm. lét það fylgja sem skýringu að þegar ég flutti þingmál 1985--1986 um það að farið yrði kerfisbundið yfir þennan alþjóðasáttmála með tilliti til íslenskra aðstæðna hafi það einfaldlega verið tómt mál vegna þess að það menn hafi ekki haft skilning á málinu þá. Mig minnir að sáttmálinn sé frá 1979 og Ísland hafði fyrir því í júnímánuði 1985 að staðfesta sáttmálann. Þá hlaut næsta verkefni að vera að nýta sáttmálann innan lands. Um það fjallaði tillagan. Ég gerði það m.a. af tillitsemi við hv. þm. og ágæta þingmenn Kvennalistans sem ég hef átt ágætt samstarf við hér á Alþingi um alllangt skeið að vera ekki að rekja það sem mér var mikil raun þegar þetta þingmál kom fram að Kvennalistinn skyldi skerast úr leik og ekki bara að vilja ekki vera meðflutningsmaður tillögunnar heldur veittist gegn því að tillagan fengi framgang á þingi og það var mér algjörlega óskiljanlegt. Um það má lesa í DV 18. nóv. 1985, 25. nóv. 1985 og 2. des. 1985 ef menn vilja kynna sér blaðaskrif sem af þessu spunnust. Ég hlýt að nefna þetta hér vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Ég vil ekki vera að efna til deilna um fortíðina í þessum málum. Málefnið er það, og um leið tek ég eindregið undir ábendingar hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um málnotkun, að karlar og konur hér á þingi sem annars staðar leggist saman á sveif til þess að tryggja þau mannréttindi sem stjórnarskráin veitir okkur, a.m.k. í orði og tryggja það að sú mikla mismunun sem blasir við gagnvart konum í þessu samfélagi verði leiðrétt. Þó að þar þurfi að koma til sértækar aðgerðir sem stundum eru kallaðar forgangur þá tek ég eindregið undir það því að það mun þurfa til ef við ætlum að ná árangri.