Lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 18:56:38 (772)

1996-11-04 18:56:38# 121. lþ. 16.3 fundur 80. mál: #A lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[18:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hér er einu sinni enn hreyft í þingsölum þessu mikilvæga máli um lífræna og vistræna landbúnaðarframleiðslu. Ég get tekið undir margt af því sem kemur fram í grg. með þáltill. en ég vil fyrst minna hv. 1. flm., frsm. málsins og aðra flm. á það að vissulega erum við að vinna að þessum málum. Það er í gangi sérstök vinna eða sérstakt framkvæmdarplan varðandi framleiðslu og markaðssetningu á vistrænum og lífrænum afurðum og það er hv. flm. vel kunnugt um því ég hygg að hann sitji sjálfur í framkvæmdarnefnd um það mál.

Ég vil í öðru lagi nefna að í fjárlögum fyrir árið í ár, seinasta ár og í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir allnokkrum fjárupphæðum til að styðja þetta mál og þetta verkefni þannig að það er ekki eins og ekkert hafi gerst í málinu og ekki hafi verið unnið að því. Það er vinna í gangi. Hér er hins vegar sett fram hugmynd um ákveðna markmiðssetningu, sem er alveg skýr, að ná 20% af hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu sem lífrænni framleiðslu fyrir árið 2003.

Ég vil aðeins segja það, út af þessu ágæta og háleita markmiði, að við þurfum auðvitað líka að huga að því að Ísland er kannski þrátt fyrir allt ekki best fallna land í heimi til þess að framleiða og rækta. Við höfum nóg landrými en veðráttan, jarðvegurinn og gróðurinn okkar er kannski ekki sá öflugasti til að ná þeim markmiðum fram þó svo að vaxandi áhugi sé á þessu. Ég tel mjög mikilvægt að nýta þennan þátt landbúnaðarins í meira mæli en við höfum gert til að skapa okkur aukna markaði, sem ég hygg að séu fyrir hendi, með framleiðslu af þessu tagi. Ég er sammála flm. hvað það varðar.

Ég vil líka minnast aðeins á það að talið er af hálfu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, að mjög erfitt verði að brauðfæða íbúa þessarar jarðar á næstu árum eða áratugum og í þessum mánuði á að halda sérstaka ráðstefnu þjóðarleiðtoga um það verkefni. Hún verður haldin í Róm um miðjan mánuðinn. Heiti ráðstefnunnar er World Food Summit og fjallar um möguleikana á að framleiða næg matvæli fyrir íbúa jarðar. Eins og útlitið er í dag eiga menn engin svör við hvernig á að fara að því innan tiltölulega fárra áratuga, 30--50 ára, menn vita ekkert um hvernig á að fara að því í viðbót við það hungursástand sem er þó víða í heiminum.

[19:00]

Þess vegna er grátlegt fyrir okkur Íslendinga sem höfum landrými og mögulega þó þeir séu kannski ekki eins og þeir gerast bestir --- en við höfum vissulega möguleika til matvælaframleiðslu --- að okkar verkefni skuli nú um þessar mundir vera að skera niður og draga úr matvælaframleiðslu okkar eins og við lífsins mögulega getum af efnahagslegum ástæðum, af því að við höfum ekki markaði eða markaði sem vilja greiða nægilega vel fyrir okkar landbúnaðarframleiðslu. Allt þetta á að hafa í huga. Ég segi þetta síður en svo til þess að mæla gegn þeirri tillögu sem hér er flutt. Ég held að hugsun hennar og hugmyndir sem á bak við hana búa séu mikilvægar. Það er mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað að nýta alla kosti sem til eru.

Í lokin vil ég segja vegna orða hv. 4. þm. Austurl. um reglugerð um vistvæna framleiðslu sem sett var fyrr á þessu ári, að fram hafa komið athugasemdir við þá reglugerð og hvernig að henni var staðið. Vinna við endurskoðun reglugerðarinnar er í skoðun í landbrn. þannig að þeim sjónarmiðum sem hann var að mæla fyrir og minna á að hefðu verið tekin til umræðu áður, mættu ekki niður falla og þyrfti að halda til haga, er haldið til haga. Ég fullvissa hann og aðra hv. þingmenn um að það mál er til frekari skoðunar.