Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:50:00 (801)

1996-11-05 15:50:00# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var út af fyrir sig ágæt viðleitni hjá hv. þm. að reyna að verja ríkisstjórnina en staðreyndirnar tala bara sínu máli. Mér fannst þetta ansi mikið klór í bakkann. Hv. þm. talar um að íslenskar fjölskyldur hafi það bara gott, séu hamingjusamar. Heldur þingmaðurinn það virkilega að aldraðir, öryrkjar og fátækir, og sá hópur fer sístækkandi hér á Íslandi, samþykki það sem hv. þm. sagði hér áðan? Hvað þýðir það þegar við erum að tala um stefnu ríkisstjórnarinnar í fjölskyldumálum að á sl. tveimur árum hafa gjaldþrot tvöfaldast, úr rúmlega 400 í tæplega 900? Hvað þýðir það fyrir heimilin í landinu að bara á þessu ári hafa skuldir heimilanna, í tíð þessarar ríkisstjórnar, bara á einu ári, vaxið um 25 milljarða? Hvað þýðir það fyrir heimilin í landinu að ríkisstjórnin vinnur að því að tolla svo grænmeti hér á Íslandi að heimilin geti ekki keypt það en það hækkar samt skuldir heimilanna um 1.300 milljónir? Og þingmaðurinn talar hér um vaxtalækkun, að aðgerðirnar hafi stuðlað að vaxtalækkun. Við erum nýgengin í gegnum eina vaxtahækkunina. Heimilin hér á landi þurfa að búa við 2--3% hærri vexti heldur en heimili sem við berum okkur saman við. Og Ísland er eitt landa innan OECD þar sem heimilin þurfa að búa við verðtryggingu. Ég veit ekki í hvaða fílabeinsturni hv. þm. er. Ég veit að það er góð viðleitni að verja þessa ríkisstjórn, en hamingjan sanna, ég skil ekki í hvaða fílabeinsturni hv. þm. hefur verið síðan hún varð stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar.