Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:53:46 (803)

1996-11-05 15:53:46# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki þessari ríkisstjórn að þakka að við búum við stöðugleika og lága verðbólgu heldur fyrst og fremst láglaunafólki og launafólki í landinu. Og það var síðasta ríkisstjórn sem lagði grunn að þeim stöðugleika og lágu vöxtum sem við búum við. En það er haldið áfram, jafnvel þó við séum komin inn í góðæri og uppsveiflu. Það er haldið áfram. Hverjir hafa borgað brúsann? Ég skora á hv. þm. að fara yfir listann varðandi fjárlög yfirstandandi árs --- árásina á ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Hann er langur sá slóði og það er haldið áfram á næsta ári. Er hv. þm. virkilega ánægð með fjármagnstekjuskattinn eins og ríkisstjórnin ætlar að leggja hann á fólkið í landinu? Þar sem raunverulegum fjármagnstekjueigendum er hlíft, þeir þurfa að borga minni skatta til samfélagsins en þeir gerðu áður en fjármagnstekjuskatturinn kom á og það er fyrst og fremst hinn venjulegi sparifjáreigandi með örfáar krónur á sinni sparisjóðsbók sem á að borga skattana. Þetta er nefnilega fyrst og fremst ríkisstjórn hinna ríku sem hér situr við völd. Og í tíð ríkisstjórnarinnar vitum við það, Morgunblaðið hefur sagt það, Dagur-Tíminn hefur sagt það, málgögn þessara flokka, að fátækt hefur vaxið á Íslandi. Það eru 32.000 einstaklingar sem lifa hér undir hungurmörkum og þingmaðurinn leyfir sér að halda því fram að allir séu hamingjusamir og lifi í sælu hér á landi. Mér finnst ótrúlegt að þetta komi úr munni hv. þm. Ég hélt að þingmaðurinn væri jarðbundnari en þetta.