Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:57:11 (805)

1996-11-05 15:57:11# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:57]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. 4. þm. Reykn. setti fram þá ósk eða trú að þessari ríkisstjórn mundi takast að koma þessu máli í gegn á þinginu. Já, henni mun takast það, virðulegi þingmaður, vegna þess að stjórnarandstaðan á Alþingi mun tryggja það að þetta mál verði afgreitt fljótt og vel út úr félmn. og í gegnum Alþingi. Og það er í raun og veru meira heldur en hægt hefði verið að búast við fyrir rúmu ári vegna þess að á þessum erfiða febrúarmánuði 1995, eina mánuði eftir áramótin sem það þing starfaði, var ekki hægt að ná því fram við stjórnarandstöðuna að hún tæki þátt í því að hleypa þessu góða máli í forgang þótt á því væri þreifað. Því auðvitað er góðum málum, sem stjórn og stjórnarandstaða sameinast um, hægt að hraða í gegnum þingið.

En það er merkilegt að svo ungur þingmaður, í umræðu um fjölskyldumál sem við erum að fagna hér í dag, falli í hefðbundna efnahagsumræðu undir því máli og finnist að þá lifni loks yfir umræðunni þegar umræðan fer í þann farveg að þjarka um efnahagsmálin. Framsfl. hamast við það að benda á hagvöxtinn sem á að búa til 12.000 störf og segja að Framsfl. og aðild hans í ríkisstjórn hafi búið til þennan hagvöxt. Mér leiðist svolítið að þurfa að vera með þetta nagg en í erfiðri stöðu á síðasta kjörtímabili, á miklum samdráttartímum, var haldið þannig á málum, eins og ég hef stundum sagt, við svita og tár að það náðist yfir 2% hagvöxtur sem var orðinn til þegar kosningabaráttan var háð og þegar Framsfl. var að lofa sínum 12.000 störfum, og það datt engum í hug að sá hagvöxtur, sem væri verið að reyna að ná og yrði reynt að viðhalda, ætti að búa til störfin. Allt sem hefur verið sagt síðan hefur verið tóm skreytni í samanburði við þann málflutning sem var viðhafður í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári.

Virðulegi forseti. Ég vil óska þess að umræðan falli ekki í það að verða hefðbundin efnahagsumræða ,,a la`` karlar heldur haldi áfram að vera mjúk, jákvæð fjölskylduumræða hér um hvert skal stefna, hvert skuli halda í framtíðinni, til að ná fram góðu umhverfi fjölskyldnanna í landinu.