Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:39:17 (819)

1996-11-05 16:39:17# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:39]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað og fagna því sérstaklega að þáltill. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu er lögð fram og lýsi yfir stuðningi við efni hennar þó að auðvitað vanti þætti sem ég hefði viljað sjá í þessu plaggi og áður voru þar. En tillagan er að stofni til unnin í ráðherratíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og síðar Rannveigar Guðmundsdóttur. Í þeirri tillögu sem var fullunnin þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir yfirgaf félmrn. voru atriði sem ég hefði gjarnan viljað sjá og þá kannski fyrst og fremst að tryggt væri með ákveðnum hætti hvernig standa ætti að að rannsóknum á stöðu fjölskyldunnar. Í III. kafla þessarar tillögu um aðgerðir í þágu fjölskyldunnar er aðeins talað um það í e-lið að stuðla skuli að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna. En ekki er neitt í tillögunni sem segir hvernig tryggt skuli að það verði gert.

Það er ansi margt sem hægt er að samþykkja hér á Alþingi strax og ætti í raun og veru að falla mjög vel að vilja hæstv. félmrh. miðað við þessa tillögu. Nú þegar hafa verið lögð fram á þingi mál sem falla inn í þessa liði. Þau eru að vísu langflest og að stærstum hluta flutt af stjórnarandstöðunni. En ég vildi gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að þau verði samþykkt og nái fram að ganga vegna þess að þau falla alveg að þeirri stefnu sem hér er sett fram. Því hefur verið lýst yfir af fulltrúum allra þeirra flokka sem hér hafa talað að ekkert sé því til fyrirstöðu að þessi tillaga hljóti mjög skjóta afgreiðslu á Alþingi.

Ég er að tala um mál eins og frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir flytur og annað reyndar mjög svipað og nánast samhljóða sem ég flyt. Það er frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem tryggir aðgang barna og barnafjölskyldna að þjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa sem mér sýnist að falli mjög vel að þeim markmiðum sem sett eru í II. kafla þessarar þáltill. Ég bendi á að það hefur ítrekað komið fram að mjög margar fjölskyldur og börn innan mjög margra fjölskyldna þurfa á aðstoð sálfræðings eða félagsráðgjafa að halda vegna vandamála sem upp koma innan fjölskyldu og utan. En okkur hefur ítrekað verið bent á að þessi þjónusta, þar sem hún er ekki sjálfsagður hluti af heilbrigðisþjónustunni, er svo dýr að þrátt fyrir kannanir um hamingju og afkomu Íslendinga, eru mjög margar fjölskyldur sem ekki hafa efni á því að veita börnum sínum þessa þjónustu.

Við höfum einnig lagt fram frv. til laga um rétt til launa í veikindaforföllum, um Lánasjóð ísl. námsmanna, um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslu og um styttingu vinnutíma án lækkunar launa. Allt þetta eru mál sem þingflokkur Alþb. og óháðra hefur flutt og mér sýnist geta verið fullkomlega í anda þeirrar tillögu sem hér er til umræðu. Til að ná þeim markmiðum sem þar eru sett á tiltölulega skömmum tíma, er búið að undirbyggja og vinna mjög mörg mál sem hægt væri að afgreiða til að ná fram nú þegar eða strax á næsta ári þeim markmiðum sem sett eru í tillögunni.

En það hafa einnig verið fluttar tillögur af öðrum í stjórnarandstöðunni og ég nefni t.d. þáltill. um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara þar sem 1. flm. er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og þáltill. um aðgerðir til að afnema launamisrétti kynja sem hv. þingmenn Kvennalistans flytja. Það er því úr nógu að moða af þeim málum sem nú þegar hafa verið lögð fram og munu auðvelda hæstv. ráðherra mjög að ná þeim markmiðum sem eru sett fram í þessari þáltill. um fjölskyldustefnu.

[16:45]

Í nokkrum liðum er talað um að sköpuð skuli skilyrði til að fara í ákveðnar framkvæmdir, eins og t.d. í 3. liðnum þar sem stendur: ,,Réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs.`` Það er að sjálfsögðu jákvæð aðgerð og það hafa einnig verið fluttar tillögur um það hér. En í framhaldinu er aðeins ein setning sem segir: ,,Ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til fæðingarorlofs.`` Ég vildi gjarnan heyra hjá hæstv. ráðherra hvaða skilyrði það eru nákvæmlega sem ráðherrann telur að þurfi til að tryggja aukinn rétt feðra til fæðingarorlofs. Einnig er það 4. liðurinn sem er tillaga um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Í framhaldi af því er aðeins sagt: ,,Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til ...`` Ég vildi gjarnan fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hverjar þær aðgerðir eru sem ríkisstjórnin telur að þurfi að fara í til að þessi skilyrði verði til staðar og hvort ríkisstjórnin muni grípa til þeirra aðgerða er skapa þessi skilyrði og á hvað löngum tíma það verði gert.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Mér fannst hún vera án öfga og taka á málunum eins og þau eru, stöðunni eins og hún er í dag. Hæstv. ráðherra talaði um að staða fjölskyldunnar hefði breyst mjög mikið vegna þess að þjóðfélagið sjálft hefði tekið mjög örum breytingum á undanförnum árum og að það þyrfti að grípa til aðgerða og tryggja atvinnu. Hann talaði um mikilvægi þess að hver einstaklingur hefði rétt til atvinnu og helst að hún væri tryggð.

Mér fannst kveða við dálítið annan tón hjá hæstv. ráðherra en þeim hv. þm. sem var í nefndinni sem endurskoðaði þessa þáltill. fyrir hæstv. ráðherra, þ.e. hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem telur nauðsynlegt að hér verði sett fjölskyldustefna en telur að það sé staðreynd að lífskjör fjölskyldna í landinu séu mjög góð. Þetta er auðvitað bara þvaður. Það er hægt að tala um einhver meðaltöl þar sem tekjur einstakra fjölskyldna eru mjög háar. Við vitum hins vegar að mikill fjöldi býr við afar lágar tekjur eins og hér er búið að rekja. Að meðaltali er hins vegar hægt að segja að launin séu tiltölulega góð. Og það að vitna í kannanir um hamingju fólks. Ég held að þær kannanir séu afar hæpnar svo ekki sé meira sagt.