Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:23:08 (824)

1996-11-05 17:23:08# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:23]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Því miður hefur hv. þm. eitthvað misskilið mig. Ég vil láta það koma fram að húsbréfakerfið hefur að ýmsu leyti reynst vel. Það er greið afgreiðsla í húsbréfakerfinu og að mörgu leyti hefur það reynst vel. Hins vegar var ég að tala um fólkið sem fékk greiðsluerfiðleikalán með húsbréfum. Það voru ekkert mörg þúsund manna sem betur fór því að þau lán voru ólán. Afföllin urðu 25%. Fólk skrifaði sig fyrir 4 milljörðum, fékk 3 milljarða í vasann og þessi skuldaaukning sem varð hjá þessu fólki kom því bara í koll því miður. Það er það fólk sem ég var að tala um. Nú hef ég ekki burði til að fullyrða að hver einasti maður hafi lent í vandræðum en það er ákaflega algengt með þá sem leita til mín út af fjárhagsvandræðum sínum í viðtalstímum í félmrn. að þeir hafi tekið þessi greiðsluerfiðleikabréf. Það er ákaflega algengt í Ráðgjafarstofunni líka að þeir sem þangað leita hafa einmitt tekið svona húsbréf. Það er eitt enn sem er ástæða til að nefna og vakti athygli mína í skýrslu Ráðgjafastofunnar en það er að sá árgangur sem er í mestum vanskilum er fólkið sem er fætt á milli 1940 og 1950. Það hefði átt að vera búið að stofna heimili þegar verðtryggingin dundi yfir.