Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:25:23 (825)

1996-11-05 17:25:23# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:25]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað fagna ég því að vandræðin voru ekki eins stór og ég misskildi af fyrri ræðu hæstv. ráðherra. En hann minnist á atriði sem komu upp á síðasta kjörtímabili þegar afföll urðu 24--25%, 1 milljón af hverjum 4 komst aldrei í hendurnar á þeim sem voru að byggja yfir sig húsnæði. Ég þekki mörg dæmi um vandræði þessa fólks. Nú veit ég ekki hvort það hefur allt fengið greiðsluerfiðleikalán en þarna er í rauninni einn síðasti misgengishópur hvað þetta varðar frá árunum 1991--1992. Síðan hafa nú afföllin minnkað. Auðvitað eru það ekkert annað en okurlán sem þannig þróuðust á því tímabili. Það var hörmulegt að ekki var brugðist þá við.

Hæstv. ráðherra minnist hér á þá skuldsettu sem fæddir eru á árunum milli 1940 og 1950. Auðvitað er manni það umhugsunarefni. Ég hef velt því fyrir mér hvort það geti stafað af því sama sem hæstv. ráðherra minnist á stundum að þetta er fólk sem á uppkomin börn. Er þetta fólk sem hefur misst allt sitt vegna uppáskrifta fyrir börn sín? Kynni það að vera ástæðan fyrir því að þetta fólk, komið á miðjan aldur, er svo illa statt? Ég vil alla vega viðra þá skoðun mína hér við hæstv. ráðherra og biðja hann að kanna það nánar hvort ástæðurnar séu þær.