Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:39:09 (829)

1996-11-05 17:39:09# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að fjölskyldurnar hættu ekki að safna skuldum eftir að Páll Pétursson settist í félmrn. Skuldirnar hafa aukist um nærri 50 milljarða á þessum stutta tíma sem hann hefur verið félmrh. Þannig að 50 milljarðar af 350 milljarða skuldum heimilanna frá 1980 er nú dágott á einu og hálfu til tveimur árum.

Þessar reikningskúnstir hjá ráðherranum varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra eru alveg furðulegar. (Félmrh.: Til málefna fatlaðra.) Já, til málefna fatlaðra. Og það er erfitt að ræða þetta við hann. Hækkunin er mikið náttúrlega vegna verðuppfærslna og launahækkana. Hvað vill ráðherrann segja um það sem stendur í frv. fjmrh. um 268 millj. kr. niðurskurð í Framkvæmdasjóð fatlaðra? Ég bið hann bara um að skýra það.

Ráðherrann talaði ekki um það sem ég spurði hann að: Hvernig ætlar hann að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldna? Hvernig hefur hann hugsað sér það og mun ríkisstjórnin hafa eitthvert frumkvæði í kjarasamningum varðandi það að leiðrétta launamismun kynjanna? Ég hefði gjarnan viljað fá það fram hjá ráðherranum.

Einnig er ljóst að það hefur verið ráðherrann sjálfur sem tók út það sem var í frv. áður, að það kæmi sjóður um fjölskylduvernd. Ég spyr ráðherrann ef það hafa ekki verið sjálfstæðismenn sem höfðu frumkvæði að því að óska eftir að þessi sjóður færi út, hvað gekk ráðherranum til að hafa slíkt ekki í þessari tillögu sem hefði þá átt að tryggja það frekar að það væri hægt að hrinda í framkvæmd þeim áformum sem eru þó í þessari tillögu. Þetta virðist allt vera mjög dularfullt. Ég held að það sé rétt að það vanti inn í að segja til hvað langs tíma þetta fjölskylduráð eigi að sitja. Ég vænti þess að nefndin taki tillit til þess og að þessar áætlanir verði þá skoðaðar saman. Spurning er hvort það eigi ekki að steypa þeim saman í eina áætlun.