Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:45:48 (832)

1996-11-05 17:45:48# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:45]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Alþfl. hefur margt vel gert í félagsmálum. Það er söguleg staðreynd. Ráðherrar Framsfl., þeir sem hafa fengist við félagsmál, bæði Alexander Stefánsson og Páll Pétursson, hæstv., tel ég að hafi einnig unnið vel í þeim málaflokki. En besti árangurinn náðist trúlega þegar þessir tveir flokkar unnu saman á milli 1930 og 1940. Það er aftur á móti ekki á það hlustandi að halda því uppi sem rökum þegar deilt er á gamla kerfið í húsnæðismálum og verið að tala um fjölskyldustefnu að sjóðurinn hafi verið að fara á hausinn. Hvers gjaldþrot hefði það orðið? Ríkisins? Fjölskyldnanna? Og ef menn hafa tekinn þann pólinn í hæðina að betra væri að fjölskyldurnar færu á hausinn en að ríkið missti þennan sjóð í gjaldþrot, þá hafa menn tekið ranga stefnu. Það er nú einu sinni svo að þá hefði reynt á Alþingi Íslendinga hvort þeir hefðu viljað halda uppi Húsnæðisstofnun eða ekki. Hitt atriðið er að lána þeim sem eru í greiðsluerfiðleikum lán með 25% afföllum. Jafnvel gyðingarnir hefðu verið montnir af slíkum lánsmöguleikum á sínum tíma, mjög montnir. Og þeir hefðu ekki þurft neina Húsnæðisstofnun til að annast slík útlán hefðu þeir talið að þeir gætu náð þeim peningum til baka. Þess vegna segi ég: Það eru söguleg mistök að þetta skyldi hafa átt sér stað. Og afföllin eru hinn veiki hlekkur húsbréfanna sem gerir það að verkum að það er ákaflega erfitt, undir sumum kringumstæðum, að verja það sem hefur gerst í skuldasöfnun heimilanna á þann hátt að fólk hefur aldrei fengið þá peninga lánaða sem það hefur verið skráð fyrir. Og Seðlabankinn fylgdi því ekki eftir að vera sá viðskiptavaki sem talað var um í þessu sambandi, að vera sá viðskiptavaki sem kæmi í veg fyrir að þessi afföll færu ekki úr hófi fram.