Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:51:14 (835)

1996-11-05 17:51:14# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara leggja eina spurningu fyrir hv. þm. Telur hv. þm. það gott kerfi fyrir unga fólkið í þessu landi sem er að koma sér upp húsnæði að þurfa að bíða í tvö, þrjú eða fjögur ár eftir því að fá húsnæðislán með ærnum tilkostnaði, t.d. kostnaði við það að leigja íbúðir, t.d. kostnaði við að taka bankalán til þess kannski að geta leigt íbúðir? Lánshlutfallið var þar miklu lægra. Það þurfti sífellt að vera að taka bankalán til að brúa bilið. Vill þingmaðurinn taka upp slíkt kerfi sem þrátt fyrir allt þetta mikla fjármagn --- það fóru milljarðar á milljarða ofan sem ríkisframlag í þetta kerfi. Ekkert ríkisframlag fer í húsbréfakerfið. --- þrátt fyrir þetta mikla framlag þurfti fólk að bíða í mörg ár eftir því að fá þessa lánafyrirgreiðslu, selja lánsloforðin. (Gripið fram í.) Ætli það hafi ekki oft verið með 20--25% afföllum? Það væri fróðlegt að reikna út þessi afföll og þann kostnað sem fólk varð fyrir í 86-kerfinu. Það er kannski orðið tímabært að gera það.