Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:00:11 (849)

1996-11-06 14:00:11# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:00]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil þakka ríkisstjórn Íslands fyrir það hversu ákveðið hún brást við gagnvart yfirlýsingum um að það þyrfti að tryggja vegauppbyggingu aftur á þessu svæði, en bæta því við að mér þótti ekki skemmtilegt að horfa á hér um bil alla ríkisstjórnina koma út úr sömu flugvélinni ásamt yfirmönnum Almannavarna því það er nú einu sinni svo að þegar margar flugvélar eru að sveima á sömu slóðum, skapast slysahætta. Ég held að það sé kannski verkefni fyrir Almannavarnir að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um það hversu skynsamlegt sé að heil ríkisstjórn, eða hér um bil heil, sé öll í sömu flugvélinni, án þess að ég vilji vera með neinar hrakspár.

Ég vil vekja athygli á öðrum hlutum líka. Sá hógværi maður, Helgi Hallgrímsson, núverandi vegamálastjóri, vann við uppbyggingu Skeiðarárbrúar á sínum tíma og mat þá styrkleikann sem þar þyrfti að vera. Ég held það sé gæfa þessarar þjóðar að hann er nú vegamálastjóri og er öðrum mönnum hæfari til að meta hvernig skynsamlegast verður staðið að enduruppbyggingunni. Mér sýnist það sé kannski ekki síður stórt atriði að veita stuðning við landflutninga á þessari leið til þess að Vegagerðin fái það ráðrúm sem þarf til að standa að uppbyggingunni. Eins fagna ég því að það er staðfest að íslenskir vísindamenn gátu sagt fyrir um það hver yrði mesta hæð Grímsvatna áður en hugsanlegt hlaup mundi hefjast. Allt eru þetta atriði sem skipta máli í því að við getum frekar tekið mark á sérfræðingum okkar á hinum ýmsu sviðum við mat á því sem er að gerast í landinu.