Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:27:09 (907)

1996-11-07 12:27:09# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:27]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Því rifja ég þetta upp af því mér finnst þetta skipta máli í umfjöllun um byggðastefnu. Eins og segir í ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, með leyfi forseta: ,,Aðalatriði er að þessar nýju stjórnsýslueiningar fái í hendur meira vald. Að kjörið verði með lýðræðislegum hætti í stjórnir þeirra til fylkisþinga eða fylkisstjórna og að fylkin fái sjálfstætt skattlagningarvald.`` Ég er nefnilega alveg sammála þessu. Ég er þeirrar skoðunar að það sem best mundi duga landsbyggðinni til að halda sínum hlut og eflast væri að hún hefði málin í eigin höndum í stað þess að draga málin öll hingað til Reykjavíkur. Og síðan er sett upp einhver stofnun sem á að deila út til okkar til baka því valdi sem búið er að taka af okkur. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að færa valdið út á land og héðan í burtu. Ég er ekki að fara í andsvar til að andmæla ræðu hv. þm. Gísla S. Einarssonar. Ég er bara að spyrja hann um afstöðu hans til þessa máls sem mér finnst vera kjarni málsins.