Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:34:20 (912)

1996-11-07 12:34:20# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:34]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það hafi verið ómaklega vegið að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur úr þessum stól. Ég veit að hún er manneskja til að svara fyrir þau orð. Ég tel að það sé mjög óheppilegt þegar menn eru í málefnalegri umræðu, hvort sem það er um skýrslur eða annað, þegar menn grípa tækifærið að viðhafa málflutning eins og hv. síðasti ræðumaður. Grundvallaratriðið er að Ríkisendurskoðun telur að Byggðastofnun eigi að leggja mat á hvort fjármagn sem hefur verið veitt til sveitarfélaga, fyrirtækja, einstaklinga eða annarra aðila í formi lána, styrkja eða hlutafjár, hafi leitt til þess að þau markmið sem eru skilgreind í lögum um stofnunina hafi náð fram að ganga. Þetta er aðalatriðið. Þess vegna segi ég: Það er nauðsynlegt að stjórnarmenn Byggðastofnunar leggi í slíka vinnu til að meta árangur sinn.