Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:26:01 (952)

1996-11-07 16:26:01# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:26]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi biðlistana sem hv. þm. spurði hvort ætti að leggja fram aukafjárveitingu til. Ég ætla að minna á það að aðeins eru tveir mánuðir síðan samþykkt var aukafjárveiting til sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu upp á hálfan milljarð. Það eykur að sjálfsögðu svigrúm sjúkrahúsanna til starfsemi sinnar. Það hlýtur hv. þm. að sjá eins og flestir aðrir.

Hv. þm. sagði að það væri ekki boðlegt að ekki væri nákvæmlega uppi á borðinu hvaða stofnanir verða sameinaðar. Það verður upp á borðinu um leið og það er ákveðið af heimamönnum og þeir eru búnir að sætta sig við að samræma starfsemi sína á þann hátt sem að er unnið, þá verður þinginu auðvitað kynnt það. Mér finnst satt að segja að hv. þm. sé nú ekki svo ósammála mér í því að það sé hægt að ná verulegri hagræðingu með samræmingu sjúkrahúsa úti á landi ekki síður en á Reykjavíkursvæðinu.