Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:39:44 (955)

1996-11-07 16:39:44# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:39]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. var ekki kominn til þings þegar ég flutti ræðu mína áðan þannig að ég vil fá að ítreka spurningar og það sem ég sagði í þeirri ræðu. En megininntakið var það að mér finnst og ég er sammála Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu í því að með því að færa þessa liði, starfsmenntun í atvinnulífinu og styrki til nýsköpunar kvenna, undir Atvinnuleysistryggingasjóð sé verið að blanda saman alls óskyldum málum. Það er verið að létta ákveðnum verkefnum af Atvinnuleysistryggingasjóði, sem áttu þar reyndar alls ekki heima, sem eru kjararannsóknir og eftirlaun til aldraðra. Það er verið að flytja það frá sjóðnum en í staðinn koma tvö ný verkefni. Mér finnst að þarna sé verið að blanda saman hlutum sem eiga alls ekki saman. Starfsmenntun í atvinnulífinu kemur atvinnuleysi í sjálfu sér ekkert við. Ef menn vilja að atvinnulífið standi undir þessari starfsmenntun eru auðvitað aðrar leiðir til þess en að vera að færa þetta undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég tel að starfsmenntun í atvinnulífinu sé nauðsynleg. Það á eftir að kalla á miklu meira fjármagn. Þetta er spurning um menntastefnu og spurning um framtíðina. Atvinnuleysisvandinn er einfaldlega annað mál. Ég spyr hæstv. félmrh. hvort hann telji að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sé til þess fær að taka á þessu verkefni, þ.e. að úthluta styrkjum til starfsmenntunar og til verkefna kvenna eða er meiningin að starfsmenntaráðið starfi áfram og hvert er þá hlutverk stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs í þessu dæmi? En enn og aftur, það á ekki að blanda saman svo ólíkum þáttum. Ríkisvaldið á að styrkja starfsmenntun og standa undir starfsmenntun eins og annarri grunnmenntun. Menntakerfið er að breytast. Framtíðin kallar á stöðuga símenntun og endurmenntun og fólk er að bæta við sig nánast allan starfsaldur sinn. Ég skil ekki hugsunina á bak við þetta aðra en þá að koma þessu yfir á atvinnulífið.