Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:50:53 (988)

1996-11-07 18:50:53# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þær fyrirspurnir sem hér hafa komið fram hafa verið til umræðu í dag og þeim hefur verið svarað áður. Varðandi heilsugæsluna í Fossvogi og Sjúkrahús Reykjavíkur, t.d. varðandi sameiginlega stjórn, þá er ekki verið að ræða um það í þessu tilviki. Það er verið að tala um smáar heilsugæslustöðvar sem eru reknar inni í sjúkrahúsum úti á landi. Það hefur komið fram a.m.k. tvisvar sinnum í umræðunni og er allt í lagi að það komi fram í þriðja skipti.

Varðandi stjórnirnar hér í Reykjavík er gert ráð fyrir að ein stjórn sé yfir heilsugæslunni í Reykjavík. Það er einmitt til að ná meira samræmi milli heilsugæslustöðvanna og er mjög eðlilegt. Og af því að hv. þm. kvartaði sérstaklega yfir því að þetta væri ekki sparnaður, þá er það auðvitað sparnaður að hafa eina stjórn í staðinn fyrir fjórar. Þar að auki er þetta mjög þungt í vöfum eins og þetta er nú og menn eru ekkert mjög nálægt vettvangi eins og þetta er nú. Þessu er skipt í fjórar stjórnir. Miklu eðlilegra að hafa stjórnina eina. Þess vegna er gert ráð fyrir því í frv. og sparar auk þess nokkrar krónur.