Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:55:29 (991)

1996-11-07 18:55:29# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef enn ekki fengið svar frá hæstv. ráðherra um það hvort haft hafi verið samráð við borgaryfirvöld um þetta atriði. (Heilbrrh.: Það er samkomulag um þetta mál svona almennt.) Almennt? ,,Það er samkomulag um þetta mál svona almennt``, segir hæstv. ráðherra. Var haft samráð við borgaryfirvöld um þessa skipan mála? Ég hefði gjarnan viljað fá svar við því hreint út frá hæstv. ráðherra. Borgaryfirvöld útnefna menn í stjórnir þessara heilsugæslustöðva og það er í umræðunni að heilsugæslan fari til sveitarfélaganna. Það er tilraunaverkefni í gangi annars staðar og jafnvel fram undan að heilsugæslan fari alveg yfir til sveitarfélaganna. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að haft hefði verið samráð við borgaryfirvöld og að fagleg stefnumótunarumræða færi fram um það hvernig þessum málum skuli háttað, en að ekki væri gripið til alls konar tillagna í formi bandorms eins og þess sem hér liggur fyrir og er til umræðu í þinginu nú.