Umboðsmaður jafnréttismála

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:24:56 (1002)

1996-11-07 19:24:56# 121. lþ. 20.10 fundur 41. mál: #A umboðsmaður jafnréttismála# frv., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:24]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um umboðsmann jafnréttismála. Fyrsti flm. er Hjörleifur Guttormsson sem nú er fjarverandi. Aðrir flm. eru: Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Svavar Gestsson og sú sem hér stendur.

Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa um langt árabil verið starfandi umboðsmenn jafnréttismála og er reynslan af störfum þeirra talin góð. Í Danmörku hefur verið rætt um að koma á hliðstæðri skipan en jafnréttislöggjöf þar er nú til endurskoðunar. Þegar lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru til endurskoðunar 1988--90 lagði fyrsti flutningsmaður frumvarpsins til í nefnd sem vann að endurskoðun laganna fyrir félagsmálaráðherra að stofnað yrði embætti umboðsmanns jafnréttismála. Það varð þó ekki niðurstaðan er lög nr. 28/1991 voru sett, en í umfjöllun um málið kom fram áhugi á að slíkt skref yrði stigið innan tíðar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnað verði embætti umboðsmanns jafnréttismála frá ársbyrjun 1998. Skrifstofa jafnréttismála verði styrkt til að geta tekið við þjónustu við embættið. Með því næst fram ákveðin hagkvæmni er kemur í veg fyrir óeðlilega skörun verkefna.

Afar góð reynsla er af starfi umboðsmanns Alþingis þau ár sem liðin eru frá því að embættið var stofnað. Á árinu 1994 var stofnað til embættis umboðsmanns barna. Er sú starfsemi hafin og lofar góðu. Skynsamlegt er að stíga nú næsta skref í þessu efni með stofnun embættis umboðsmanns jafnréttismála. Nauðsyn góðrar og vandaðrar stjórnsýslu á sviði jafnréttismála er nú almennt viðurkennd og stofnun embættis jafnréttismála getur vegið þungt til að því markmiði verði náð.

Meginverkefni umboðsmanns eru sett fram í 3. gr. frumvarpsins, þ.e. að fylgjast með því að hvarvetna í þjóðfélaginu séu höfð í heiðri ákvæði laga, alþjóðasamninga og hliðstæðra samþykkta um jafnrétti kynjanna. Jafnframt skal umboðsmaður bregðast við með tiltækum úrræðum telji hann að brotið sé gegn þessum ákvæðum, þar á meðal getur hann vísað máli til kærunefndar jafnréttismála. Fræðsla og kynning er einnig mikilvægur þáttur slíks embættis og gerð tillagna um úrbætur á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda um jafnrétti kynjanna.

Gert er ráð fyrir samstarfi embættis umboðsmanns jafnréttismála við aðra aðila stjórnsýslunnar er vinna að jafnrétti kynjanna, sbr. 5. gr. Skrifstofa jafnréttismála sem annast þjónustu við Jafnréttisráð og kærunefnd jafnréttismála skal jafnframt vera skrifstofa umboðsmanns jafnréttismála. Með því geta sparast fjármunir þar eð unnt verður að samnýta starfskrafta, hafa sameiginlegan gagnabanka og koma að öðru leyti við hagkvæmri verkaskiptingu.

Flutningsmenn telja að jafnframt því sem sett verði á fót embætti umboðsmanns jafnréttismála sé tímabært að hefja endurskoðun laga nr. 28/1991, um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Þótt gerðar hafi verið endurbætur á eldri löggjöf um jafnréttismál fyrir fimm árum varð margt út undan við þá endurskoðun. Síðan hefur fengist reynsla af þeim nýmælum sem þá voru tekin upp, m.a. af kærunefnd jafnréttismála, og af annarri réttarþróun á þessu sviði hér heima og erlendis. Úr öllu þessu þarf að vinna hið fyrsta til að löggjöf á þessu sviði sé í samræmi við réttarþróun og framsækin viðhorf um jafnrétti kynjanna.

Að lokum legg ég til að máli þessu verði vísað til hv. félmn.