Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 21:18:39 (1012)

1996-11-07 21:18:39# 121. lþ. 20.8 fundur 33. mál: #A aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna# þál., Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[21:18]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hennar orð. Vegna þess síðasta sem hún sagði um nefndina sem fengi þetta mál til umfjöllunar láðist mér í fyrri ræðu minni að greina forseta frá hvert ég vildi vísa þessari tillögu. Ég vil vísa henni til síðari umræðu og hv. félmn.

Hv. þm. kom inn á ýmislegt í sinni ræðu og ég get svo sannarlega tekið undir það allt og ekki síst þetta með lágu launin sem ég held að hafi haft og eigi eftir að hafa margvíslegar félagslegar afleiðingar fyrir einstaklingana sem eiga að lifa á lágum launum. Við vitum, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, að því miður eru afskaplega margar konur á mjög lágum launum, jafnvel konur sem eru einar með börn. Reyndar sýndu kannanir fyrir nokkrum árum að stór hluti einstæðra mæðra hefur afskaplega lág laun.

Eitt er athyglisvert að nefna í þessu samhengi að ein hinna félagslegu afleiðinga er sú að fólk sem hefur mjög lág laun verður að leita til sveitarfélaganna eftir félagslegri aðstoð. Það eru sláandi tölur sem hafa birst m.a. frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar yfir fullvinnandi fólk sem getur ekki séð sér og sínum farborða og verður að leita aðstoðar hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Það er náttúrlega svo makalaust að þetta skuli vera til að það er til háborinnar skammar. Það er alveg svakalegt að íslenskt atvinnulíf skuli komast upp með þetta og vekur upp margar spurningar um skipulag og hvernig borgað er fyrir vinnu hér á landi, sérstaklega í fiskvinnslu, iðnaði og víðar. Þetta hlýtur að verða að breytast ef við ætlum að vera samkeppnisfær við aðrar þjóðir. Við munum hreinlega missa fólk úr landi ef þetta heldur svona áfram, eins og við höfum reyndar gert. Afleiðingar hinna lágu launa eru auðvitað margvíslegar. Í öðrum löndum hefur verið talað um kvengervingu fátæktarinnar. Efnahagsörðugleikar hafa fyrst og fremst bitnað á konum. Þetta er óásættanlegt.

Hv. þm. spurði mig um 9. lið tillögunnar, þ.e. hvernig ætti að herða viðurlög. Það má hugsa sér margt í þeim efnum en spurningin er: Hvaða leiðir á að fara? Það má hugsa sér sektir. Það má hugsa sér að menn eigi einfaldlega málsókn yfir höfði sér og sektir ef þeir framfylgja ekki lögunum. Það má hugsa sér að taka stikkprufur og fara í heimsóknir í stofnanir og fyrirtæki til að fylgjast með hvernig jafnréttislögunum er framfylgt. Þetta er gert í Bandaríkjunum. Þar er ákveðið kerfi á vegum atvinnumálaráðuneytisins þar sem stofnanir eru heimsóttar og tengist oft ákveðnum verkefnum. Eins og t.d. þegar sett var upp verkefni um glerþakið þar sem verið var að kanna hvernig á því stæði að svo fáar konur voru í æðstu stöðum í fyrirtækjum og er ég að tala um einkafyritæki í sjálfu landi frelsisins, Bandaríkjunum. Þar þykir ekki annað við hæfi en að lögum sé framfylgt og fyrirtæki eiga einfaldlega yfir höfði sér lögsókn og sektir ef þau fara ekki að lögum. Ef hægt er að sanna brot á jafnréttislögunum þar í landi þýðir það miklar sektir. Ég tala nú ekki um ýmis önnur brot gagnvart konum eins og kynferðislega áreitni þar sem hafa fallið þvílíkir sektardómar að mann rekur í rogastans. Dómar upp á fleiri hundruð milljónir. Það mætti hugsa sér að ríkisvaldið setti þau fyrirtæki og stofnanir í ákveðið bann sem ekki framfylgdu lögunum. Eigi t.d. ekki við þau viðskipti eða það mætti hugsa sér ýmislegt annað. Ég er ekki mjög refsiglöð en ýmsar aðgerðir eru til sem væri hægt að grípa til. Ég minnist þess þegar núv. forseti Íslands var fjmrh. fór hann í mikla herferð gegn þeim fyrirtækjum sem ekki stóðu skil á virðisaukaskatti og þeim var einfaldlega lokað. Við ættum kannski að taka okkur til og loka þeim fyrirtækjum sem ekki standa við jafnréttislögin. Það held ég að yrði aldeilis rekið upp ramakvein og víða yrði lokað. En það má alla vega gefa viðvörun og byggja þarf hér á landi upp meiri virðingu gagnvart lögum. En það er ekki von á góðu þegar við stöndum í því hér, þingmenn, að draga sett lög til baka með einhverjum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum og skerðingarákvæðum. Ákveðum fyrst að verja peningum til ákveðinna verkefna, komum svo nokkrum mánuðum síðar og skerðum það allt saman. Hvernig á fólk að bera virðingu fyrir lögunum þegar löggjafarstofnunin sjálf hagar sér svona?

Ég tek undir með hv. þm. varðandi 3. gr. jafnréttislaganna að gaman væri að leggjast yfir hana og koma með tillögur um aðgerðir beinlínis út frá þeirri grein. Segja má að sumt af því sem hér er lagt til séu tímabundnar aðgerðir. En það er svo víða. Það er um stöðuveitingar, það er um menntun, það er um sjóði og fjármagn til að styrkja konur í atvinnulífi, koma fyrirtækjum á fót og margt og margt sem rekja má til sérstakra hvetjandi aðgerða til að draga úr launamun og ójafnri stöðu kynjanna. Ég væri sannarlega til í að setjast með hv. þm. yfir tillögur um þessa tilteknu grein.