Endurskoðun á launakerfi ríkisins

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 17:51:55 (1081)

1996-11-12 17:51:55# 121. lþ. 21.17 fundur 32. mál: #A endurskoðun á launakerfi ríkisins# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[17:51]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun á launakerfi ríkisins. Ég vil fagna því sérstaklega að hv. þm. Ögmundur Jónasson er í salnum en hann er mikill áhugamaður um launakjör ríksstarfsmanna eins og raunar allir hljóta að vera sem hér eru.

Þessi tillaga er nú flutt í fjórða sinn, hæstv. forseti, en hún hefur aldrei komist svo mikið sem til nefndar vegna þess að iðulega hefur margt legið fyrir og málum okkar þingmanna ýtt til hliðar þegar frv. ríkisstjórnarinnar hafa verið annars vegar.

Það má öllum ljóst vera að launakannanir undanfarinna ára, ekki síst kannanir sem gerðar hafa verið á launamun kynjanna, hafa leitt í ljós að launamunur er verulegur og að einkum karlmenn bæta upp laun sín með ýmiss konar aukagreiðslum, óunninni yfirvinnu og öðru sem er að því er manni skilst alveg einstakt í heiminum fyrir Ísland og þekkist hvergi annars staðar.

Þær miklu deilur og verkföll sem hér hafa átt sér stað meðal opinberra starfsmanna á undanförnum árum endurspegla einnig mikla óánægju í þeirra röðum og jafnframt það að samskipti ríkisvaldsins og samtaka ríkisstarfsmanna hafa verið í heldur nöturlegum farvegi. Ár eftir ár hafa hópar ríkisstarfsmanna átt í harðvítugum verkföllum. Við höfum séð að það er ekki sest að samningaborði fyrr en í lengstu lög og jafnvel daginn eftir að verkfall hefst. Reyndar er nú búið að gera breytingar á vinnulöggjöfinni. Menn hafa sest niður við að gera viðræðuáætlanir þannig að það verður væntanlega einhver breyting á þessu. En það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig samninganefnd ríkisins mun haga sér í komandi samningum.

Meginástæðan fyrir þessari tillögu, hæstv. forseti, er annars vegar þær ógöngur sem launakerfi ríkisins er komið í þar sem grunnlaun eru afar lág en launakerfið byggist að meira og minna leyti á alls konar aukagreiðslum sem eins og ég sagði áðan dreifast afar misjafnlega. Uppbygging launakerfisins og sá feluleikur sem einkennir það tengist launamun kynjanna. Það er önnur ástæðan. Hin ástæðan er þau slæmu samskipti sem við höfum orðið vitni að milli ríkisins og stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem m.a. eiga rætur að rekja í þessu úr sér gengna launakerfi. Ég dreg ekki dul á það, hæstv. forseti, eins og kemur fram í greinargerðinni að ég geng svo langt að segja að þetta launakerfi sé orðið handónýtt.

Við sáum þegar heimilislæknar voru í verkfalli nú í sumar og fram á haust að eitt af því sem þeir voru að átta sig á var það hvernig þessir lágu grunntaxtar koma niður á þeim sem eftirlaunaþegum. Þetta er eitt af því sem fólk er að átta sig betur og betur á. Einn megingalli þessa launakerfis sem byggist að svona miklu leyti á yfirvinnu og aukagreiðslum er að það kemur niður á fólki þegar það fer á eftirlaun og fær aðeins hluta af grunnlaunum sínum. Við höfum séð að grunnlaunum hefur markvisst verið haldið niðri þannig að lægstu laun ríkisstarfsmanna eru á sultarmörkum. Ég vil taka svo fast til orða að lægstu laun sem greidd eru á vegum ríkisins eru sultarlaun og ekki mönnum bjóðandi.

Kjarasamningar eru fram undan en væntanlega þarf sú uppstokkun sem hér er verið að leggja til miklu lengri undirbúning. Menn þurfa að greina þetta kerfi í sundur og finna lausn á því hvernig því verði fyrir komið, hvernig menn færa yfirvinnugreiðslurnar og aukagreiðslurnar inn í föstu launin vegna þess að tilgangurinn er ekki að lækka fólk í launum heldur fyrst og fremst að kerfið sé gagnsætt og öllum ljóst fyrir hvað verið er að borga. Um leið og kerfið verður gagnsætt liggur fyrir hver fær borgað hvað og þar með verður líka auðveldara að taka á launamun kynjanna. Það er reyndar ekki í þessari tillögu verið að leggja til nýtt starfsmat. Við kvennalistakonur leggjum það til í annarri tillögu þar sem verið er að greina hvernig hægt verði að draga markvisst úr og útrýma launamun kynjanna. En þegar launakerfið er orðið gagnsætt held ég að það kalli mjög á nýtt starfsmat. Þegar menn hafa staðreyndirnar á borðinu kallar það á nýtt starfsmat. Og þegar ég segi: ,,Þegar við fáum staðreyndirnar á borðið``, þá segi ég það vegna þess að það er afar erfitt að átta sig á því hvernig launakjörin eru og fyrir hvað verið er að greiða.

Ég hef sjálf, og fleiri þingmenn, margsinnis lagt fram fyrirspurnir um launakjör og skiptingu þeirra. Ég minnist þess að í tengslum við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir nokkrum árum kom einmitt þessi kynjaskipting mjög greinilega í ljós. Ég spurði um það hverjir hefðu laun yfir ákveðnu marki, mig minnir að það hafi verið 2,5 millj. kr. Og minni ég þá á nýjustu tölur frá Þjóðhagsstofnun sem sýna að meðallaun í landinu eru rúmlega 1.200 þús. kr. eða 106 þús. kr. á mánuði. Ég var að leita þar eftir mun hærri launum og svarið leiddi í ljós að það voru fyrst og fremst karlkyns stjórnendur sem eru með slík laun.

Í fylgiskjölum þessa frv. er að finna ýmis gögn sem rökstyðja og sýna hvers konar hringavitleysa er til orðin í þessu kerfi. Ég minni alveg sérstaklega á það, hæstv. forseti, að þegar íslensk stjórnvöld voru kölluð fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem verið var að skoða framkvæmd barnasáttmálans, þá benti nefndin á að það þyrfti að gera viðeigandi ráðstafanir til að vinna gegn launamisrétti á milli karla og kvenna þar sem slíkt getur skaðað hagsmuni barna, einkum á heimilum sem einstæðar mæður veita forstöðu. Þessi staða launamála hér á landi er því orðin viðfangsefni nefnda Sameinuðu þjóðanna og er okkur til þvílíks vansa að ekki má bíða með að taka á þessu.

Ég get líka bent á að á 120. löggjafarþingi kom fram svar við fyrirspurn Kristínar Halldórsdóttur, Ögmundar Jónassonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar um heildarlaun tekjuhæstu starfsmanna ríkisins. Það var afar uppýsandi að skoða þær tölur sem þar komu fram og hvar þeir eru sem hafa hæstu tekjurnar. Reyndar kemur ekki fram hér hvernig skipting var þar milli kynja, en örfáar konur voru í þessum hópi. Rökin fyrir því að taka á launamálum ríkisins eru því svo himinhrópandi og margvísleg að í rauninni þarf ekki að eyða mörgum orðum á þetta og ég held að flestum þingmönnum sé ljóst að á þessum málum þarf að taka.

[18:00]

Nú má spyrja að því hvernig eigi að breyta launakerfinu, hvernig eigi að raða í launaflokka, en ég held að það geti ekki gerst öðruvísi en fram fari nýtt starfsmat meðal ríkisstarfsmanna og að menn horfist í augu við staðreyndirnar, hætti þessum feluleik og dragi hinar raunverulegu tölur fram í dagsljósið. Þá minnist ég þess þegar Kjaradómur felldi sinn úrskurð 1992 og allt fór á annan endann. Þegar Kjaradómur ætlaði að gera tilraun til þess að gera yfirborganirnar að föstum launum ætlaði allt vitlaust að verða vegna þess að menn áttu erfitt með að horfast í augu við þær staðreyndir sem komu þar fram. Ég held að því miður hafi verið haldið uppi ansi miklum blekkingaleik á íslenskum vinnumarkaði, ekki síst til þess að halda grunnlaununum niðri sem er að koma í bakið á okkur á margvíslegan hátt. Eins og ég sagði eru þau lágu laun, sem við búum við hér og launamisréttið, með þvílíkum endemum að á þessu hljótum við að taka þó að ég telji raunsætt að sjá það fyrir sér í áföngum.

Hæstv. forseti. Tillagan gerir ráð fyrir því að skipuð verði nefnd til að endurskoða launakerfi ríkisins og að í þessari nefnd eigi sæti fulltrúar þeirra aðila sem að málinu koma, þ.e. samtaka opinberra starfsmanna og fjmrn. en það má hugsa sér aðra skipan slíkrar nefndar, fulltrúa frá fleiri ráðuneytum eða hvernig sem menn vilja haga því. Hér er skilgreiningin sú að hlutverk nefndarinnar verði að einfalda launakerfi ríkisins, auka hlut umsaminna grunnlauna, draga úr eða afnema með öllu yfirborganir og aukagreiðslur af ýmsu tagi og endurskoða röðun í launaflokka.

Við upplifðum það á síðasta þingi að lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt. Þar er einmitt gert ráð fyrir heimildum yfirmanna til þess að beita aukagreiðslum. Við erum ekki enn farin að sjá neitt um það hvernig þeim aukagreiðslum verður beitt og væri fróðlegt að heyra hvort hv. þm. Ögmundur Jónasson getur flutt okkur einhverjar fréttir af því hvort einhverjar útfærslur hafi litið dagsins ljós eða hvort samtök opinberra starfsmanna hafa séð einhverjar útfærslur á þessu en vissulega er mikil hætta á því að lögunum verði beitt með sama hætti og hér hefur gerst um árabil, að það séu fyrst og fremst karlar sem njóta þessara aukagreiðslna.

Ég gæti farið lengra út í að rekja hinn þáttinn sem mér finnst skipta svo miklu máli í þessu öllu saman sem eru samskipti ríkisins við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem mér finnst hafa verið með miklum endemum á undanförnum árum og m.a. er birt fylgiskjal með tillögunni sem sýnir öll málaferlin sem opinberir starfsmenn hafa átt í gegn ríkinu á undanförnum árum. Það er alveg furðulegt þegar opinberir starfsmenn þurfa hvað eftir annað að leita til dómstóla til þess að ná fram rétti sínum. Ég efast um að þetta tíðkist í nokkru siðmenntuðu ríki eða lýðræðisríki að menn þurfi sífellt að leita til dómstóla. Látum vera þegar mikil og stór ágreiningsmál eru uppi eins og mál sem hafa farið fyrir dómstól Evrópusambandsins þar sem um prófmál er að ræða. En sá listi sem hér er að finna sýnir hvers konar stífni hefur verið ríkjandi af hálfu ríkisins og það er því til lítils sóma.

Stéttarfélögin hafa unnið mörg af þessum málum og hefur iðulega komið í ljós að þau hafa rétt fyrir sér. Minni ég þar síðast á nýfallinn dóm um biðlaunin sem á reyndar eftir að koma í ljós hvernig verður túlkaður af hálfu ríkisins.

Að lokum legg ég til, hæstv. forseti, að þessari tillögu verði vísað til síðari umr. og hv. efh.- og viðskn.