Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:15:48 (1174)

1996-11-14 12:15:48# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:15]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það fer ekki milli mála að á þeim árum sem umboðsmaður Alþingis hefur starfað hefur embættið svo sannarlega sannað gildi sitt. Hlutverk umboðsmanns er bæði mikilvægt fyrir Alþingi en umboðsmaður í umboði Alþingis á að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Ekki síður er embættið mikilvægt fyrir réttaröryggi borgaranna, en umboðsmaður á að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Það er mjög mikilvægt að búið sé mjög vel að þessu embætti þannig að það geti greiðlega sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum.

Frá því að embættið var stofnað árið 1987 hefur málafjöldi til embættisins farið sívaxandi en vel á fjórða hundrað mála berast nú embættinu til úrlausnar. Það er vissulega athyglisvert sem fram kemur í skýrslu umboðsmanns að hlutfallslega berast umboðsmanni Alþingis meira en helmingi fleiri mál en hinum norrænu umboðsmönnunum. Rekur umboðsmaður í skýrslu sinni skýringar þess eins og dæmi séu um að nauðsynleg endurskoðun og endurskipulagning á starfsháttum stjórnvalda hafi ekki farið fram, að íslensk stjórnsýsla hafi lengst af verið lausari í reipunum en stjórnsýsla nágrannaþjóðanna, lög séu oft óskýr um stöðu stofnana og embætta í stjórnsýslukerfinu og einmitt það valdi oft vafa á því hvort aðila máls er heimilt að skjóta ákvörðun hlutaðeigandi stjórnvalds til ráðuneytis eða annars stjórnvalds. Bendir umboðsmaður á að rekja megi hluta mála sem embættinu berast til þess að ekki hefur verið hugað að því við setningu laga að haga stjórnsýslukerfinu þannig að stjórnsýslan sé sjálf fær um að leysa á fljótvirkan og ódýran hátt þau vandamál sem upp koma.

Einnig hefur á fjórða tug mála reynt á reglugerðarákvæði sem sum hver hafa tæpa lagastoð og fyrirmæli frá Alþingi óljós um hvað er heimilt að setja í reglugerð. Ég tel þetta mjög gagnlegar ábendingar sem nauðsynlegt er að skoða við lagasetningu þar sem það á við.

Einnig bendir umboðsmaður á sem ástæðu þeirra fjölda mála sem honum berast, sem hlutfallslega eru mun fleiri en á hinum Norðurlöndunum, að ekki séu hér á landi stjórnsýsludómstólar. Fram kemur að slíkir dómstólar séu þó ekki í Noregi og Danmörku, en þar er almennt viðurkennt að umboðsmenn þjóðþinganna koma að nokkru leyti í stað stjórnsýsludómstóla. Einmitt þess vegna að hér er ekki stjórnsýsludómstóll, en af og til koma fram raddir um að setja upp slíkan dómstól, er mikilvægt að Alþingi og fjárveitingavaldið hafi skilning á því að nauðsynlegt er að styrkja eins og kostur er embætti umboðsmanns Alþingis svo mikilvægt sem það er í okkar stjórnkerfi. Ég nefni í því sambandi að fram kemur í skýrslu umboðsmanns að sá málafjöldi, sem embættinu hefur borist síðustu þrjú árin, hefur orðið til þess að ekki hefur verið mögulegt að afgreiða með eðlilegum hraða málin sem leitt hafa til þess að þeir sem leita til embættisins þurfi að bíða þar lengur en æskilegt væri, eins og segir í skýrslunni. Ég tel því að skoða þurfi vandlega nú við fjárlagaafgreiðslu þær fjárveitingar sem renna til embættisins, en umboðsmaður Alþingis fór fram á 38 eða 39 millj. kr. í fjárveitingu, en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir rúmum 33 millj. kr. Þessi fjárveitingabeiðni embættisins er mjög vel rökstudd og með tilliti til mikilvægis þessa embættis fyrir borgarana hvet ég til að menn skoði með opnum huga að auka fjárveitinguna til umboðsmanns Alþingis umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Reynslan sýnir okkur hve gagnlegt og mikilvægt embættið er og því hlýtur að vera breið samstaða um að styrkja embættið fjárhagslega svo það geti greiðlega sinnt sínu hlutverki bæði gagnvart Alþingi og fólkinu í landinu. Ég bendi einnig á það sem fram kom, þegar umboðsmaður og tveir starfsmenn hans komu á fund allshn., að sl. vor lagði umboðsmaður Alþingis fram óskir til forsn. þingsins um lagabreytingar til að styrkja embættið, sem lutu að því að styrkja lagalega stöðu umboðsmanns, m.a. rannsóknarheimildir embættisins. Ég vildi gjarnan spyrjast fyrir um það hjá hv. 1. þm. Reykn. og hæstv. forseta Alþingis hvaða afstöðu forsn. hafi til þessara lagabreytinga, í hvaða farvegi þessar óskir umboðsmanns Alþingis um lagabreytingar eru og hvort við munum eiga von á að forsn. flytji slíkar tillögur til breytinga á lögum um umboðsmann Alþingis og í hvaða veru þessar breytingar eru helstar sem forsn. hlýtur þá að vera að fjalla um.

Ég vil sérstaklega taka upp eitt atriði sem umboðsmaður bendir á, sem ekki hefur verið framfylgt af framkvæmdarvaldinu og hv. formaður allshn., frsm. fyrir þessari skýrslu, kom nokkuð inn á. Þetta atriði er í skýrslunni flokkað undir meinbugi á lögum þar sem umboðsmaður hefur komið á framfæri ábendingum um lagabreytingar. Í þessu tilviki var það til hæstv. dómsmrh., en í september 1988 ritaði umboðsmaður dómsmrh. þess efnis að umboðsmaður Alþingis fengi heimild til þess að veita gjafsókn, þar sem um nýtt embætti var að ræða sem ætlað var að stuðla að réttarbótum í þjóðfélaginu og treysta rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Umboðsmaður bendir á að 1991 voru sett lög um meðferð einkamála, en þar var ekki að finna ákvæði sem veitir dómsmrh. heimild til að veita gjafsókn að tillögu umboðsmanns Alþingis sem, eins og fram kom í ræðu frsm., er hjá umboðsmönnum þjóðþinga á Norðurlöndum.

Allshn. tók á sínum tíma undir þessi tilmæli umboðsmanns og ég vil árétta hve mikilvægt það er að umboðsmaður hafi slíka heimild og tel reyndar, þar sem dómsmrh. hefur ekki orðið við þessari ósk, að allshn. ætti að skoða það sérstaklega. Ég beini því til formanns allshn. að flytja slíka tillögu sem veiti dómsmrh. heimild til að veita gjafsókn að tillögu umboðsmanns Alþingis.

Eins og frsm. nefndi fær allshn. árlega álit umboðsmanns um meinbugi á lögum og það sem vakti athygli mína í þeim sjö málum sem umboðsmaður leggur nú fyrir allshn. eru að tvö þeirra lúta að nauðungarvistun á sjúkrahúsum. Í báðum málunum beinir umboðsmaður Alþingis tilmælum til dóms- og kirkjumrh. að þetta sé sérstaklega skoðað varðandi undirbúning frv. til nýrra lögræðislaga. Hérna eru tvö mál sem umboðsmaður bendir á sem lúta að breytingum á lögræðislögum og ég held að þetta styrki það sem margir í þingsölum hafa talað fyrir, að breyta þurfi lögræðislögunum og hækka sjálfræðisaldurinn.

Það skulu vera mín lokaorð og ég tel fulla ástæðu til að þakka umboðsmanni Alþingis og starfsliði hans fyrir þá ítarlegu og vönduðu skýrslu sem hér er til umræðu og frsm. og formanni allshn. fyrir hennar innlegg í þessa umræðu.