Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:31:15 (1186)

1996-11-14 13:31:15# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:31]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár er svar hæstv. samgrh. sem er að finna á þskj. 112 við fyrirspurn minni um markaðsstarfs heilsárshótela á landsbyggðinni og fjárstyrkir til þess. Í fyrirspurninni voru lagðar nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra þar sem þess var farið á leit að hann gerði grein fyrir því hvernig staðið hafi verið að úthlutun 20 millj. kr. til heilsárshótela á landsbyggðinni í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Svör hæstv. samgrh. voru þess eðlis að ekki verður við unað.

Virðulegi forseti. Áður en lengra er haldið tel ég nauðsynlegt að rifja upp þá hugmyndafræði sem hvílir að baki þrískiptingu ríkisvalds og kveðið er á um í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Markmiðið með þrískiptingunni er að ekki safnist of mikið vald á einn þátt ríkisvaldsins. Það er því eitt meginhlutverk löggjafarvaldsins, þ.e. alþingismanna, að fylgjast með og veita framkvæmdarvaldinu aðhald í störfum sínum.

Í 49. gr. þingskapa er þingmönnum heimilað að leggja fyrirspurnir fyrir ráðherra og krefjast svars um opinbert málefni sem eru á ábyrgð viðkomandi ráðherra. Að baki þessari heimild hvílir sú hugsun að þingmenn geti sinnt því hlutverki sínu að fylgjast með og veita framkvæmdarvaldinu aðhald í störfum sínum. Til að gefa þingheimi dæmi um svör ráðherra má nefna sem svar við beiðni minni um rökstuðning fyrir úthlutun til einstakra hótela á sama svæði í sömu starfsgrein svarar hæstv. ráðherra því til að efnahagsleg þörf viðtakendanna ráði því að sum hótel fengu styrk en önnur ekki, þ.e. þau hótel sem ekki fengu styrk hafi ekki haft efnahagslega þörf fyrir styrki. Hvers konar rökleysa er þetta?

Annað dæmi: Hæstv. ráðherra er spurður um skilgreiningu á hugtakinu heilsárshótel sem virðist hafa verið lykilhugtak við úthlutun styrkja. Hann svarar því til að þau hótel sem hægt sé að kalla heilsárshótel séu forsenda frekari uppbyggingar ferðaþjónustu á viðkomandi svæði. Til þess að skýra hvað þetta svar þýðir má nefna að á Akureyri, í kjördæmi ráðherrans, fékk Hótel KEA eitt styrk. Því hljóta önnur hótel á svæðinu að vera afleiðing af auknu ferðamannastreymi en ekki forsenda.

Virðulegi forseti. Rökleysan er svo yfirgengilegt að hún gæti vart orðið meiri í leikhúsi fáránleikans.

Hér hafa aðeins verið nefnd tvö dæmi af handahófi um svör ráðherra. Mörgum spurningum lét hann á hinn bóginn ósvarað. Niðurstaða mín var því sú að þar sem ekki var mögulegt að fá rökstudd svör eftir venjulegum leiðum væri einn kostur fær, þ.e. sá að taka ráðherra upp í umræðum utan dagskrár og krefjast svara.

Tilefni fyrirspurnar minnar til hæstv. ráðherra var fyrst og fremst að reyna að fá fram svör ráðherra við þeirri spurningu hvers vegna sum fyrirtæki fengu ríkisstyrki á meðan önnur sambærileg fengu það ekki. Samkeppnisráð hefur áður fjallað um úthlutanirnar. Ráðið gerði tilraun til þess að fá rökstuðning ráðuneytisins fyrir ráðstöfun fjárins. Það tókst ekki. Til þess að skýra frekar gagnrýni mína á úthlutanir ráðherra er rétt að benda á að samkvæmt upplýsingum úr handbók Ferðamálaráðs Íslands eru heilsárshótel á landsbyggðinni 42. Samkvæmt upplýsingum Samkeppnisstofnunar eru 15 heilsárshótel í nálægð við þau hótel er fengu úthlutað styrkjum. Hér er því um fyllilega sambærileg hótel að ræða. Styrkjunum var úthlutað án undangenginnar kynningar eða auglýsingar. Samkeppnisaðilum í rekstri heilsárshótela á landsbyggðinni var ekki gert kleift að sækja um þessa styrki og keppa um þá á jafnréttisgrundvelli. Hótel sem fengu styrki geta nýtt hann til markaðssóknar í heild, jafn innan sem utan háannatímans og því ljóst að með umræddum ríkisstyrkjum er verið að mismuna keppinautum. Styrkveitingin hefur skaðleg áhrif á samkeppni á þessu sviði.

Í áliti sínu telur Samkeppnisstofnun sérstaklega ámælisvert að styrkja frekar hin stærri hótel á landsbyggðinni en hin minni. Samkeppnisráð telur þá úthlutun fara þvert gegn markmiði og tilgangi samkeppnislaga.

Það sem vekur eftirtekt við þessar úthlutanir er að tveir hæstu styrkirnir fara til hótela sem er í kjördæmi formanns þeirrar nefndar sem gerði tillögur til ráðuneytisins um hvernig fénu skyldi útdeilt. Það vekur sérstaka eftirtekt í svari ráðherra við títtnefndri fyrirspurn að það hótel sem fær hæsta styrkinn er í miklum vanskilum við þann eina sjóð sem spurt er um og mikið umhugsunarefni hvort fyrirtæki sem er þannig ástatt um sé líklegt til stórafreka á sviði markaðssetningar.

Virðulegi forseti. Reynslan hefur fært okkur heim sanninn um að samkeppni er forsenda góðrar þjónustu, fjölbreytts vöruúrvals og lágs vöruverðs. Því er nauðsynlegt að vernda samkeppnina samkeppninnar vegna. Ríkisstyrkir eins og þeir sem hér um ræðir eru alvarleg atlaga að samkeppninni. Hv. þm. Pétur Blöndal orðaði þessa hugsun hér á Alþingi í umræðum um skýrslu Byggðastofnunar eitthvað á þessa lund: Hvernig eiga fyrirtæki og einstaklingar í heiðarlegum og góðum rekstri í samkeppni að geta keppt á markaði við slíka styrki? Það er óeðlilegt og ósanngjarnt.

Þessi aðför hæstv. samgrh. að samkeppni þarf ekki að koma neinum á óvart. Hann og aðrir forkólfar Sjálfstfl. aðhyllast svokallaða kampavínssamkeppni. Þeir mæla og dásama samkeppni í skálaræðum á tyllidögum en á virkum dögum hygla þeir keppinautum með ríkisstyrkjum og draga með aðgerðum sínum úr virkri samkeppni. Já, þeir sjá um sína. Spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru því hinar sömu og lagðar voru fyrir hann í umræddri fyrirspurn: Hvernig rökstyður hæstv. ráðherra úthlutanir sínar? Ætlar samgrh. að fara að tilmælum samkeppnisráðs um að fara að lögum við úthlutun styrkja fyrir árið 1996? Hvar er að finna heimild fyrir samgrh. að ráðstafa fé úr ríkissjóði með þessum hætti?