Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 17:10:34 (1232)

1996-11-14 17:10:34# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[17:10]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að hæstv. ráðherra var eitthvað upptekinn á meðan á ræðu minni stóð því að ég fór einmitt nákvæmlega yfir það þegar þingkonur Kvennalistans lögðu fram þingmál í ljósi þess að þetta atriði, samsköttunarleiðin, var ekki á leið út úr skattalöggjöfinni m.a. vegna eindreginnar afstöðu Sjálfstfl. og raunar flestra ef ekki allra þingflokka á Alþingi. Þá lögðum við fram frv. þess efnis að einstæðir foreldrar gætu nýtt ónotaðan skattafslátt barna sinna sem byggju hjá þeim til þess einmitt að það væru þó fleiri sem nytu þessa afsláttar en aðeins hjón eða einstaklingar í sambúð. En með því vorum við ekki að snúa frá þeirri skoðun okkar og það var margtekið fram að í raun ætti þessi samsköttun ekki að vera fyrir hendi.

Hvað framtalseyðublaðið varðar þá kannast ég ekki við að uppsetningu þess hafi verið breytt þannig að það sé jöfnuður á milli kynjanna, alltént er karlmaðurinn alveg örugglega talinn fram á undan. Það er þá eitthvað sem við fáum að sjá á næsta ári ef gerð hefur verið breyting á. En hvernig sem því er varið þá er það það eina rétta að mínum dómi að hver fái sitt skatteyðublað og beri ábyrgð á því.