Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 17:12:51 (1233)

1996-11-14 17:12:51# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[17:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem við ræðum hér í dag er býsna víðfeðmt. Það tekur á ýmsum þáttum skattalaga en eins og hefur komið fram einkum þó þeim sem snúa að fyrirtækjunum í landinu. Einkum þeim sem Vinnuveitendasambandið hefur talið að þyrfti að lagfæra.

Hér eru breytingar sem snúa að einstaklingum og sveitarfélögunum sem leiða af fyrri lagabreytingum eins og ákvæði 6. gr. þar sem aðilar í staðfestri sambúð fá sambærileg réttindi og þeir sem í hjónabandi eru varðandi skattalögin annars vegar og hins vegar er hér verið að breyta lögum vegna yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég get ekki látið hjá líða fyrst í frv. er ákvæði sem snýr að sveitarfélögunum og grunnskólanum að nefna að ef til vill þarf ríkissjóður á meiri tekjum að halda á næsta ári en menn hugðu þegar fjárlagafrv. var lagt fram vegna þess að nú er fallinn dómur í biðlaunamáli kennara þar sem það liggur fyrir að þeim, sem neituðu flutningi og öðrum þeim sem hættu og voru með fyrirvara um biðlaun, hafa verið dæmd biðlaun. Hvað þetta þýðir fyrir aðra kennara er auðvitað ekki ljóst en ég held að þessi dómur og annar nýgenginn hljóti að sýna okkur fram á að stjórnvöld hafa vissulega verið á nokkrum villigötum þegar þau hafa haldið því fram hér í þingsölum og annars staðar að að þær breytingar sem hafa verið gerðar á stöðu opinberra starfsmanna og verið er að gera kalli ekki á biðlaun eða veki biðlaunarétt. En það er annað mál þó að við sjáum fyrir okkur að skattarnir fari til að greiða þessi ákveðnu biðlaun.

[17:15]

Það hefur komið fram í umræðunni í dag og verið fullyrt að Íslendingar vilji ekki mikinn mun tekna. Þeir þoli ekki ójöfnuð og snemma í umræðunni voru menn að tala um að launamunur á Íslandi væri til muna minni en víða annars staðar. Hér væri semsé í því tilliti meiri jöfnuður. En það er merkilegt að þjóð sem á svona bágt með að þola ójöfnuð og vill hafa svona mikinn jöfnuð skuli líða þann mikla ójöfnuð sem er í launakjörum kynjanna. Þegar við erum að tala um lagabreytingar á tekjuskatti og eignarskatti hljótum við að horfa til þess hvaða mynd kemur upp þegar búið er að leggja þessa skatta á. Hvað sýnir sú mynd? Samkvæmt þeirri skýrslu sem hér hefur verið vitnað til, skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem snýst um skattamál einstaklinga og fjölskyldna fremur en fyrirtækja, kemur í ljós að hlutfall atvinnutekna kvenna af tekjum karla er fyrir síðasta ár einungis 52%. Konur eru semsé með um það bil helmingi lægri tekjur en karlar eða 73 þús. kr. að meðaltali á mánuði á móti 140 þús. kr. Árið 1980 var þetta hlutfall 46,6% þannig að aðeins hefur miðað. En ef 15 ár hefur tekið að nurla inn þessum örfáu prósentum þá líst okkur ekki á blikuna. Á sama tíma og launin hafa þokast örfá prósent, þó þau séu enn einungis rétt um 50% af atvinnutekjum karla, hefur atvinnuþátttaka kvenna hins vegar stóraukist um mun fleiri prósent eða úr 63% árið 1984 í 80% árið 1994. Það er enn þá merkilegra að horfa til þess hversu mikil atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er eða 80% og sú mesta sem um getur, ef litið er til þeirra landa sem við berum okkur saman við og jafnvel þó víðar væri leitað af því að hér fara menn vítt um heiminn í samanburði, að ekki einasta vinna íslenskar konur meira utan heimilis en stallsystur þeirra í öðrum löndum heldur eiga þær líka fleiri börn. Fæðingartíðnin hér er mun hærri en í öllum nálægum löndum og við þurfum að fara í aðra heimsálfu, til Mexíkó, til að finna hlutfall sem er hærra. Ef við viljum horfa okkur nær þurfum við að fara til Tyrklands til að finna tölu sem er hærri. En í öllum þeim löndum sem við alla jafna berum okkur saman við er fæðingartíðnin lægri.

Þess vegna má segja, herra forseti, að íslenskar konur sýni óvenjulegan dugnað. Kannski er það af því að þær sýna þennan óvenjulega dugnað að ekki hefur enn þótt ástæða til að umbuna þeim sem skyldi, eða hvað? Vegna þess að við erum ekki bara í dag að tala um hvað skattarnir sýna hvaða tölur koma upp þegar búið er að leggja á skattana og í ljós kemur hverjar atvinnutekjurnar voru. Við erum líka að tala um það hvernig búið er að fjölskyldunni og við erum að tala um jaðarskatta. Ég held að við séum öll sammála um það, sem hér erum, að barnafjölskyldan á Íslandi ríður ekki feitum hesti frá því kerfi sem er.

Við stærum okkur oft af því að þrátt fyrir launin og ýmsar umkvartanir launafólks og fjölskyldna á Íslandi sé það samt svo að Ísland sé í sjöunda efsta sæti OECD-ríkjanna miðað við landsframleiðslu á hvern einstakling, ef við erum að tala um fólk á vinnualdri frá unglingsárum og upp til 65 ára aldurs. Ef við tökum hins vegar með í dæmið að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er mun hærri en annars staðar og ef við leiðréttum fyrir þeirri ,,skekkju`` þá dettur Ísland niður í 20. sæti. Þá eru lífskjörin ekki lengur svona merkileg. Þannig að það er harðfylgi kvenna sem heldur lífskjörum þjóðarinnar uppi. Þetta er staðreynd sem ég held að við ættum að hafa í huga og hlýtur að hvarfla að manni og sækja nokkuð á þegar horft er til þeirra staðreynda sem fram koma í skýrslu Þjóðhagsstofnunar um skatta einstaklinga og fjölskyldna, um tekjur, eignir og dreifingu þeirra.

Skattarnir skapa bæði fyrirtækjum og fjölskyldum ákveðið umhverfi. Ég held við séum öll sammála um að lág laun eru lítill hvati fyrir fyrirtækin til að auka sína framleiðni. Ég held að líka liggi fyrir að lágir skattar og þægilegt skattaumhverfi sé ekki heldur hvati á fyrirtæki til að hysja upp um sig og laga til hjá sér. Ég held því að ærin ástæða sé til að íhuga og fara yfir þær áherslur sem eru í skattamálum hjá okkur. Hafa þær skilað því sem vænst var? Hefur sá árangur orðið sem menn vildu sjá? Ég er ekki viss um að svo sé.

Ég fór yfir það áðan hversu hátt atvinnuhlutfall kvenna á Íslandi er. Það er merkilegt að atvinnuhlutfall kvenna helst svona hátt þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi verið hlutfallslega meira víða um land, einmitt meðal kvennanna. En þar komum við reyndar að svolítið merkilegum kafla sem snýr að atvinnuþátttöku og þeim breytingum sem eru að verða á okkar vinnumarkaði. Hagstofan hefur frá árinu 1991 verið með mælingar tvisvar á ári þar sem hún hefur kannað hvernig þessar breytingar hafa verið og hvaða breytingar eru að eiga sér stað. Úrtakið er 4.400 manns á hverjum tíma eða 8.800 manns á ári. Á árunum frá því að þessar mælingar byrjuðu, eða árið 1991, til 1995 hefur konum á vinnumarkaði fjölgað um 3.900 á sama tíma og körlum á vinnumarkaði hefur einungis fjölgað um 1.200. Það sem gerir þessar upplýsingar enn merkilegri er það að 3.000 af þessum 3.900 störfum kvennanna eru skipuð háskólamenntuðum konum. Á sama tíma hafa einungis bæst á vinnumarkað 200 ný störf fyrir háskólamenntaða karla. Þetta gerist á sama tíma og atvinnuleysi hefur verið viðvarandi og ástæðan fyrir þeim mun, sem hefur verið víða á atvinnuleysi karla og kvenna, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu, mun vera sú að karlar urðu atvinnulausir vegna þess að þeim var sagt upp enda hafa um 4.000 störf ófaglærðra tapast á þessu sama árabili en atvinnuleysi kvenna stafar frekar af því að þær eru nýjar á vinnumarkaði.

Við sjáum af þessu að þó að lítt hafi miðað í launamálum hjá konum og að við grátum það að menntun kvenna hafi ekki enn þá skilað sér í bættum launum er þó menntun kvenna að skila sér í því að hún skapar þeim vinnuna.

Þessi tilhneiging sem blasir við, þ.e. að þúsundir ófaglærðra starfa eru að tapast en konur með háskólamenntun eru að koma inn á vinnumarkaðinn er í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað annars staðar á Vesturlöndum undanfarin ár. Hún er hluti af þeirri mynd sem skapar þann vanda karla á Vesturlöndum sem ég vék að í umræðunni um jafnréttismál sem Kvennalistinn efndi til fyrir um það bil viku. Ég vísaði þar í grein í The Economist þar sem fjallað var um vanda karla og í rauninni hvernig sá vandi spilar inn í jafnrétti og jafnréttisviðleitni kvenna. Þar var sérstaklega fjallað einmitt um þennan þátt, hvernig karlarnir eru í ríkari mæli að missa þau störf sem þeir, ófaglærðir, áður gátu haft og fengið en hvernig aukin menntun kvenna og það hvernig þær sækja inn í þjónustustörfin, sem sífellt er að fjölga, gefur þeim hins vegar möguleika á fjölbreyttri atvinnu og mun gera það í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sá vandi karla sem af þessu stafar er efni í aðra umræðu, herra forseti, þó ég hafi ekki getað látið hjá líða að nefna þetta vegna þess að ég held að full ástæða sé til að við íhugum þá tilhneigingu sem hér er á ferðinni í samhengi við það sem við þekkjum að er að gerast annars staðar vegna þess að afleiðingarnar hér verða nákvæmlega þær sömu og þær hafa orðið á öðrum Vesturlöndum. Þær sjást þegar m.a. í að brottfall pilta úr skólum er meira en stúlkna. Þær sjást m.a. að ýmis vandamál sem tengjast aga eru líklegri til að koma upp meðal drengja en stúlkna o.s.frv. Ég vænti þess að karlar taki betur við sér en þeir hafa gert hvað varðar stöðu sína og þá möguleika sem þeir þurfa að skapa sér til frjórra og betra lífs með því að styðja konurnar og taka þátt í þeirri viðleitni til frekara jafnréttis bæði á vinnumarkaðnum og inni á heimilunum, sem konur hafa verið að vinna að á undanförnum áratugum og árhundruðum væri líklega réttara að segja.

Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa fleiri orð um það mál sem hér er á dagskrá en ég gat ekki sleppt, vegna þess að skýrsla Þjóðhagsstofnunar um skattamál einstaklinga og fjölskyldna kom til umræðu, að tína til fleiri upplýsingar úr þeirri skýrslu, upplýsingar um hvað kemur í ljós þegar búið er að leggja á þá skatta sem leiða af þeim lögum sem hér er verið að fjalla um.