Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:19:16 (1244)

1996-11-14 18:19:16# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:19]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Flm. þessa þáltill. talar um erlendar sjónvarpsstöðvar og aukinn aðgang okkar að slíku efni og það er aðeins af hinu góða. En það gerir það enn og æ mikilvægara að styðja við Ríkisútvarpið og menningarhlutverk þess. Þegar æ fleiri áhrif utan úr heimi berast, sem er af hinu góða, þurfum við að rækta betur þetta menningarhlutverk sem Ríkisútvarpið sinnir. Ef við afnemum skylduáskriftina að Ríkisútvarpinu erum við nánast að veikja þessa stofnun mjög mikið. Við erum að kippa undan því rekstrargrundvellinum. Skylduáskriftin er forsenda þess að hægt sé að reka öflugt ríkisútvarp og ég hef ekki heyrt hv. þm. nefna hvaða tillögu hann er með í þeim efnum að hægt verði að hafa öflugt ríkisútvarp og sjá því fyrir tekjum. Ég hefði gjarnan viljað heyra það hér. Í máli hv. þm. kom einnig fram umræða um dagskrárstefnuna og Ríkisútvarpið ætti ekki að vera að leika hér létta tónlist eins og aðrar stöðvar. Dagskrárstefna er algjörlega óskylt því hvort hér eigi að vera skylduáskrift eða ekki. Auðvitað á dagskrárstefna Ríkisútvarpsins að vera í sífelldri endurskoðun, ég get alveg tekið undir það. En það kemur ekki skylduáskriftinni við. Aftur á móti er skylduáskriftin grundvöllur fyrir því að við getum rekið öflugt ríkisútvarp.