Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:23:21 (1246)

1996-11-14 18:23:21# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Ríkisútvarpið heldur úti ýmiss konar starfsemi sem einkareknir fjölmiðlar sinna ekki. Það eru auðvitað rökin fyrir því að ríkisútvarp er okkur nauðsynlegt. Hann talar um að það eigi að greiða reksturinn úr ríkissjóði. Ég spyr hv. þm. þó hann geti ekki komið fram aftur í andsvari hvort hann treysti því að Ríkisútvarpið muni fá fjármagn til þess að halda úti slíkri starfsemi úr ríkissjóði þegar við horfum upp á endalausan niðurskurð til þjónustustofnana, til heilbrigðiskerfisins, til menntakerfisins. Treystir hann því að ekki verði tekið af þessum fjármunum þegar litið verður til Ríkisútvarpsins? Ríkisútvarpið er okkur nauðsyn. Sérstaklega litlu lýðræðissamfélagi. Það er vissulega nauðsyn að hafa Ríkisútvarpið og það á að vera rekið af okkur öllum, sérstaklega þegar litið er til allra þeirra þátta sem því er ætlað að sinna og þegar maður lítur til þess að það eru ýmsar skyldur sem það verður að sinna sem aðrir munu ekki gera. Ég er algjörlega andvíg því að það eigi að fella niður skylduáskriftina að Ríkisútvarpinu og ég býst við því að flestir sem velta þessum hlutum fyrir sér sjá hversu stórt og mikið þjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins er séu mér sammála.