Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:49:47 (1255)

1996-11-14 18:49:47# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:49]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. 10. þm. Reykn., Viktori B. Kjartanssyni, fyrir þessa þáltill. um afnám skylduaðildar að Ríkisútvarpinu. Ég er ánægður með þessa tillögu en vil ganga lengra.

Herra forseti. Af hverju stendur ríkissjóður Íslands í útvarps- og sjónvarpsrekstri? Hvað með blaða- og bókaútgáfu? Hvað með internetið? Af hverju vill ríkissjóður Íslands ekki fara að stunda internetið og skylda alla Íslendinga til að keyra í gegnum sig á internetinu? (Gripið fram í.) Halldór ætlar að gera það, já. (Gripið fram í: Póstur og sími.) Það er nefnilega málið. Hvers vegna stendur ríkissjóður Íslands í þessu?

Herra forseti. Hér hefur verið rætt um skattheimtu til Ríkisútvarpsins og þetta er nefskattur, 24.000 kr. á ári. Hann er ákaflega andfélagslegur fyrir þá sem eru félagslega sinnaðir vegna þess að maður sem er með 48.000 kr. á mánuði borgar hálf mánaðarlaun fyrir þessa skylduaðild. Ef hann langar til að horfa á Stöð 2 verður hann að borga hálf mánaðarlaun til Ríkisútvarpsins fyrir að horfa á Stöð 2 af því að hann kaupir sér sjónvarp til þess. En mann sem hins vegar er með mjög háar tekjur munar ekkert um þetta. Þetta er andfélagslegt og þetta er skylda ef menn yfirleitt vilja horfa á sjónvarp.

Hér var áðan rætt um vandamálin sem koma upp við að innheimta þetta, þ.e. persónunjósnir og fylgst er með því hver fær hvað í skilnaði.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, kom réttilega inn á að þetta skerðir samkeppnisstöðu einkastöðvanna. Það virkilega drepur einkaútvarpsstöðvarnar. Hvernig geta þær stundað sína starfsemi á meðan Ríkisútvarpið fær styrk og trygg afnotagjöld? Þær geta það ekki. Þær hafa sýnt virkilega góða burði. Ég hlusta t.d. mikið á eina sígilda stöð sem sinnir ,,menningarstarfsemi``. Þessi skylduaðild að Ríkisútvarpinu og sjónvarpi drepur niður einkastöðvarnar og gerir þeim miklu erfiðara að starfa.

Hér hefur líka verið rætt um vald fjölmiðla. Það er alveg yndislegt að heyra menn tala um vald fjölmiðla. Fyrir nokkrum árum var hér bara einn fjölmiðill það var Ríkisútvarpið. Og ég mátti gjöra svo vel og hlusta á það og hlusta á þær fréttir sem þaðan komu stýrt af pólitískum aðilum til að byggja undir vald pólitískra aðila. Alþingi Íslendinga kaus menn til að stjórna því hvað ég mátti horfa á og hvaða upplýsingar ég fengi. Hver kvartaði þá undan valdi fjölmiðla? Nú er þetta þó orðið þannig að ég get horft á fjöldann allan af sjónvarpsstöðvum bæði innlendum og erlendum þannig að þetta vald er mikið að hverfa. Ég vil geta þess líka að í Sovétríkjunum gömlu var það meginkeppikefli ríkisvaldsins að hafa vald á sjónvarpsstöðvum og fjölmiðlum yfirleitt. Einasta dagblaðið sem þar var gefið út, Pravda, var líka á vegum ríkisvaldsins og að sjálfsögðu sjónvarps- og útvarpsstöðvar og internetið hefði orðið það líka ef þau hefðu lifað svo lengi. Þannig að það sem við búum hérna við eru gamlar leifar af sovétskipulagi og ekkert annað.

Menn hafa talað um hlutverk ríkisfjölmiðlanna, þ.e. Ríkisútvarpsins -- hljóðvarps og sjónvarps. Öryggishlutverk, upplýsingahlutverk, fræðsluhlutverk, menningarhlutverk. Uppeldishlutverkið gleymdist, þ.e. að sjónvarpinu er ætlað að ala mig fullorðinn manninn upp, kenna mér að meta sígilda tónlist væntanlega. (SvG: Þú getur alltaf slökkt.) Hvað er menning? Ég spyr: Hvað er menning? Er það menning þegar unglingar eru á popptónleikum? Einhver segir örugglega nei. Ég segi: já. Það er menning. Menning er það sem menn stunda almennt. En ríkisfjölmiðlarnir hafa verið að ala menn upp og segja mönnum: ,,Þetta er menning og hitt er ekki menning.`` Þannig hefur það verið vegna þess að þeir hafa svo mikið vald.

Ég er með lausn á þessu. Hún er sú að við einkavæðum Ríkisútvarpið, látum starfsmennina taka það yfir og sjónvarpið sömuleiðis. Þeir geta farið að senda út lyklaða dagskrá líka í samkeppni við Stöð 2 og Stöð 3. Það væri miklu betra og þá er búið að fullnægja öllum þessum skilyrðum um upplýsinga-, menningar- og fræðsluhlutverk því þessar stöðvar sinna því bara ágætlega. Öryggishlutverkið vantar og ég veit alveg hvað ég geri við það. Landhelgisgæslan sér hvort sem er um tilkynningarskylduna og Almannavarnir taka öryggishlutverkið yfir og svo hafa þessar stofnanir litla rás þar sem þær senda út t.d. þjóðlög. Og svo ef neyð ber að þá hafa þær heimild til að ryðjast inn á dagskrá hinna stöðvanna allra og gera það hvort sem er í dag. Þannig að þetta verður ljómandi góð aðferð.

Ég vil endurtaka það að þetta gjald sem nú er tekið er mjög andfélagslegt og þessi skattlagning er mjög slæm og ég skil ekki af hverju það þarf að gerast, ef ég vil horfa á einhverja stöð, segjum Stöð 2 eða Stöð 3, að ég þurfi að horfa á Ríkissjónvarpið líka eða borga fyrir það þó ég vilji ekki horfa á það. Nú er það reyndar þannig að ég horfi töluvert mikið á Ríkissjónvarpið. Það er bara ágætis stöð og ég er alveg sannfærður um að ég mundi kaupa áskrift að henni þegar hún væri komin í gang því hún er bara ágæt. (Gripið fram í: Þú gerir það hvort eð er.)