Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:56:17 (1256)

1996-11-14 18:56:17# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:56]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkuð langt gengur hv. þm. Pétur H. Blöndal í umræðu um þessa þáltill. því hann vill ganga miklu lengra en gert er ráð fyrir í henni. Það hefði raunar verið eðlilegt að hann hefði lagt fram sína eigin sjálfstæðu þáltill. um þau efni því þessi tillaga gengur ekki út á það. Hann talaði um að rekstur Ríkisútvarpsins á afnotagjöldum væri gamlar leifar af sovétskipulagi, ef ég skildi hann rétt. Það er nú einu sinni þannig að hin vestrænu Evrópuríki hafa öll kosið að taka enn á þessu máli, þ.e. ljósvakamiðlunum, með því að reka mjög öflugar ríkisstöðvar. BBC er mjög öflug stofnun sem gefur út afar mikið af vönduðu dagskrárefni sem reyndar hefur þá sérstöðu vegna þess hversu útbreidd ensk tunga er, að vera söluvara út um allan heim. Við erum lítið samfélag sem hefur ekki sömu stöðu til að framleiða vandað dagskrárefni innan ríkisstofnunar og koma því á markað en hefur hins vegar sömu skuldbindingar gagnvart sínum þegnum til að halda úti vönduðu dagskrárefni og fjölbreytilegu. Við komumst því fljótt að þeirri niðurstöðu að við getum ekki með góðu móti eins og ástandið er nú, trúað einkastöðvunum fyrir þessu hlutverki. Ef hv. þm. lítur nú yfir einkastöðvarnar í Evrópu, og undanskil ég þá íslensku stöðvarnar í þessu tilfelli, er þeirra dagskrárefni afskaplega fábreytilegt og ekki til þess gert að skapa þá breidd í dagskrárefni sem hlutverk þessara ljósvakamiðla gerir nauðsynlegt að þeir bjóði upp á vegna þess hvað þeir hafa mikil áhrif á menningu.