Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 20:54:25 (1261)

1996-11-14 20:54:25# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[20:54]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Lokaorð hæstv. ráðherra um þetta skattafrumvarp voru kannski ekki mjög efnismikil. Hann kom ekki inn á öll þau atriði sem við spurðum um, gerði ekki neitt úr þeirri skuldaaukningu sem við höfum nú bent á t.d. hjá heimilunum einmitt á milli þessara tveggja síðustu ára. En látum það vera. Ég vil hins vegar knýja á um svör frá hæstv. ráðherra um tekjuáhrif þessa frv. Hann verður að svara því. Þetta eru þrjú atriði. Í fyrsta lagi skattahækkun gagnvart einstaklingum út af afnámi hlutabréfaafsláttarins. Það geta verið 500 til 800 milljónir, ég vil fá töluna nákvæmlega. Þetta þýðir skattahækkun einstaklinga. Hin tvö atriðin sem eru skattalækkun til fyrirtækja í landinu, annars vegar vegna lengingar úr fimm árum í átta, hann nefndi hér tölur upp á tugi milljarða sem falla niður. Það er erfitt að leggja mat á þetta. En ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra geri það þegar hann leggur til lagabreytingu í þessum efnum. Hann verður að geta sagt hv. Alþingi eitthvað um tekjuáhrif frv. Þriðji hluturinn er tekjuáhrif ríkisins vegna vísitölubreytinganna, þ.e. að miða við neysluvísitölu í staðinn fyrir byggingarvísitölu. Eins og ég hef bent á þá þýðir þetta breytingu varðandi tekjufærslu á vöxtum fyrirtækja. Fyrirtækin greiða tekjuskatt af þessari tekjufærslu. Munurinn á vísitölunum er verulegur. Hæstv. ráðherra verður að svara því hvað þessi breyting þýðir fyrir tekjur ríkissjóðs á næsta ári. Hann verður að koma hér, það er búið að spyrja um hann ítrekað í þessari umræðu. Hv. alþm. eiga kröfu á því að vita hvaða áhrif þetta frv. hefur á tekjur ríkissjóðs á næsta ári.