Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 20:56:37 (1262)

1996-11-14 20:56:37# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[20:56]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sumar spurningar eru þannig að það er nánast útilokað að geta svarað þeim og þess vegna verður hv. þm. að gera sér að góðu það svar sem nú kemur. Í fyrsta lagi er engin leið að sjá fyrir hve mikil hlutabréfakaup koma til með að eiga sér stað á yfirstandandi ári. Það eina sem ég get sagt er það að á undanförnum árum hefur hlutafjárfrádrátturinn verið á bilinu frá 300 milljónum upp í 650 milljónir. Ég hef ekki hugmynd um hve margir eiga eftir að festa kaup á hlutabréfum og fá frádrátt sem kemur þá fram á næsta ári. Og ég veit að því getur enginn svarað. Enginn. Það er ekki hægt vegna þess að hlutafjárkaupin eiga eftir að eiga sér stað.

Í öðru lagi er spurt um lengingu tapsins. Eðlilegasta svarið er að segja að ríkissjóður tapar engu vegna þess að í raun og veru var ekkert farið að reyna á gömlu ákvæðin. Ég hef hins vegar bent á að yfirfæranlegt tap sem er skráð í dag er í heild um 75 milljarðar og um 30 milljarðar eru frá árunum 1991 og fyrr. Ef við gefum okkur það að helmingurinn af því sé frá árunum 1988 til 1990, að báðum árum meðtöldum, þá sjáum við hve mikið við erum að stytta þetta óyfirfæranlega tap. Það er heldur engin leið að sjá núna eða nokkurn tíma hvort menn hafi getað nýtt sér allt þetta tap. Það veit enginn í dag og getur enginn vitað. Við verðum að fá forsendur fyrir spurningunni. Var miðað við þetta eins og þetta var áður? Lögin voru ekki farin að virka, áttu ekki að byrja að virka fyrr en um næstu áramót og það er ekki hægt að nálgast þetta nema með einhverjum spekúlasjónum.

Varðandi vísitölubreytingarnar er ekki heldur hægt að svara því. Því það virkar í báðar áttir eins og ég hef reyndar reynt að segja fyrr í þessari umræðu. Það virkar öðruvísi þegar um söluhagnaðinn er að ræða. Aðalatiðið er það að þessi mælistokkur er talinn vera eðlilegri heldur en byggingarvísitalan og ég veit að hv. þm. veit það. En hvort það hefur þýðingu í plús eða mínus fyrir ríkissjóð get ég ekki svarað, en það virkar í báðar áttir. Það er ljóst.