Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:03:48 (1265)

1996-11-14 21:03:48# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:03]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti notkunin á hugtakinu jaðarskattur hjá hæstv. ráðherra vera nokkuð útvötnuð og kannski ekki við hann einan að sakast í þeim efnum því að það hugtak hefur verið flatt út í daglegri umræðu eins og raun ber vitni. Jaðarskattur er í raun og veru enginn skattur. Þegar menn eru að tala um jaðarskatt þá eru menn ekki að tala um skattlagningu. Menn eru að tala um áhrif tekna á bótakerfið og kalla þau áhrif jaðarskatt. Þau áhrif verða mjög sterk í því kerfi sem við höfum búið við með verulegum persónuafslætti eða skattfrjálsum tekjum og tiltölulega fáum skattgreiðendum. Þegar upp er staðið þegar við dreifum hinni almennu skattheimtu á til þess að gera fáa skattgreiðendur og hver og einn hefur allnokkurn persónuafslátt þá verður óhjákvæmilegt að áhrif á bótakerfið verða mjög öflug. Menn verða að tekjutengja bótakerfið mjög mikið til þess að ráða við það í heild tekjulega séð.

Ég vil því, herra forseti, vekja athygli á því að menn ættu kannski að hugsa um bótakerfið á öðrum forsendum, að færa það allt sem tekjur hjá viðkomandi skattgreiðanda og skattleggja þær eins og aðrar tekjur. Með því móti mundu menn komast hjá þeirri gildru sem menn hafa lent í að þurfa að tengja bótakerfið svo sterkt við tekjur framteljandans.