Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:37:46 (1359)

1996-11-18 17:37:46# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:37]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vildi í upphafi máls míns rifja upp að mælt var fyrir málinu í síðustu viku og var umræðu þá frestað m.a. að beiðni hæstv. viðskrh. sem hafði lýst áhuga á að taka þátt í umræðunni. Ég vildi í upphafi spyrja hvort hæstv. viðskrh. sé í húsinu.

(Forseti (RA): Nei. Hann er ekki í húsinu.)

Skil ég ekki rétt, herra forseti, að hann hafi verið látinn vita af að þessi umræða, sem hann bað um frestun á?

(Forseti (RA): Jú, mér er sagt svo.)

Ef ekki hafa borist, herra forseti, nein skilaboð frá hæstv. ráðherra vil ég ganga út frá því að hæstv. ráðherra sé á leiðinni til að taka þátt í þessari umræðu eins og hann óskaði sjálfur eftir í síðustu viku.

Þetta mál, sem búið er að tala fyrir, er flutt af fjórum þingmönnum úr þingflokki jafnaðarmanna og fjallar um það að sama gildi um fiskvinnslu hvað varðar fjárfestingu erlendra aðila og almennt gildir um fyrirtæki hér á landi. Rétt er að hafa aðeins formála og rifja aðeins upp söguna um þetta mál.

Á síðasta þingi lögðu þingmenn Þjóðvaka fram frv. um heimild til að útlendingar fjárfestu í íslenskum sjávarútvegi þó með þeirri takmörkun að um væri að ræða 25% hámark fjárfestingarmöguleika þeirra. Nokkru síðar kom fram stjfrv. núv. hæstv. ríkisstjórnar þar sem gert var ráð fyrir að heimila óbeinar fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi og í kjölfarið kom fram frv. fjögurra þingmanna Sjálfstfl. um að heimila fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi allt að 49% ef ég hef þetta rétt í minni. Talsverðar umræður urðu um þetta á síðasta þingi. Málinu lyktaði þannig að stjfrv. varð að lögum en frv. þingmanna Þjóðvaka og fjögurra þingmanna Sjálfstfl. voru ekki afgreidd á því þingi.

Þá var leitt í lög að óheimil væri óbein fjárfesting í sjávarútvegi og auðveldlega var hægt að sýna fram á að útlendingar sem höfðu hug á að eignast meiri hluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum þurftu að hafa tiltölulega lítið fyrir því að búa til eignarhaldsfélög þannig að þeir gætu með einföldum hætti náð milli 60%--70% eignarhlutdeild í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þessi girðing fyrir óbeinu eignaraðildina reyndist e.t.v. ekki eins árangursrík og menn ætluðu í fyrstu. Þessir efnisþættir komu mjög skýrt fram í umræðu á síðasta þingi.

Hins vegar leggur þetta frv. upp með nokkuð aðra aðferðafræði en gert var á síðasta þingi. Hér er tekinn frá útgerðarþátturinn sem hefur hvað verið umdeildastur er varðar fjárfestingar erlendra aðila og ekki er gerð tillaga um að breyta því neitt í þessu frv. heldur eru takmarkanirnar um fjárfestingu við vinnslu sjávarafurða felldar niður. Þetta þýðir að ef frv. yrði að lögum mættu erlendir aðilar fjárfesta í frystingu, söltun, herslu, bræðslu og mjölvinnslu. Útlendingum hafa ekki verið heimilaðar beinar fjárfestingar í þessum aðalgreinum í sjávarútvegsvinnslunni. En það má geta þess að útlendingar hafa þegar heimild að fjárfesta í nokkrum vinnsluaðferðum eins og reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og innpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnslu afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu. Með þessu frv. væri látið sama gilda um íslenska fiskvinnslu og gildir almennt um iðnað.

Fjölmargir taka svo til orða að okkar fiskvinnsla sé okkar stóriðja, en stóriðja hefur einmitt einkennst af því að þar er nær eingöngu um að ræða erlendar fjárfestingar. Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að ekkert nema sóknarfæri séu fólgin í því að lögfesta frv. í þeim búningi eins og það er núna. Það er óeðlilegt að mismuna fyrirtækjum í matvælaiðnaði. Útlendingar mega fjárfesta í öllum matvælaiðnaði hér á landi ef þeir kjósa svo. Við þekkjum fjölmörg dæmi um fjárfestingar útlendinga í íslensku atvinnulífi. Það hefur reynst vel. Við þekkjum líka í samstarfi útlendinga við íslensk fyrirtæki að markaðssamstarf hafi skapast sem reynst hafi hagkvæmt fyrir báða aðila þegar fram liðu stundir. Það er ekki að efa að íslenskur fiskiðnaður mundi geta nýtt sér þá möguleika eins og hann hefur reyndar gert á ýmsum öðrum sviðum.

Við þekkjum einnig dæmi þess að Íslendingar hafa fjárfest mjög verulega í sjávarútvegi erlendis og við teljum, flestir held ég, hin auknu umsvif Íslendinga erlendis vera mjög æskilega þróun. Það ber að styðja við þá þróun og hún leiðir þá til þess að bæði þekking og arður af slíkum fjárfestingum kemur inn í íslenskt þjóðarbú. Hægt er að rökstyðja það að óeðlilegt sé að mörgu leyti að aðrar reglur gildi fyrir fjárfestingar útlendinga hér á landi í íslenskum fiskiðnaði heldur en þær leikreglur eru sem við þurfum að búa við í erlendri fiskvinnslu.

Ég legg enn og aftur áherslu á að hér er ekki verið að tala um útgerðarþáttinn, því eins og við vitum eru fiskveiðiheimildirnar bundnar við útgerðarfyrirtæki. Hins vegar leiðir þetta til þess að ef menn kjósa samstarf við útlendinga í fiskvinnslu eða útlendingar kjósa að koma og reyna að reka verðmætasköpun hér á landi, annaðhvort í samstarfi við Íslendinga eða einir, mundu menn finna þann farveg í rekstri fyrirtækja sem þeir teldu vera skynsamlegastan, t.d. að stofna sameiginlegt félag með útlensku fyrirtæki um fiskvinnslu hér á landi þar sem væri um að ræða beina fjárfestingu bæði innlends og erlends aðila.

[17:45]

Í stjórnarfrumvarpinu voru afnumdar ýmsar heimildir til takmörkunar á fjárfestingum útlendinga hér á landi, takmarkanir sem menn telja vera til bóta en hafa verið afnumdar, t.d. í bankarekstri, í virkjanamálum o.fl. Allt eru þetta atriði sem stjórnarandstaðan studdi á sínum tíma og styður enn þá hugsun sem þar kom fram.

Ég held að reynslan af löggjöfinni frá því í vor mæli með að opna málið aftur, eins og hér er lagt til, og væri mjög athyglisvert í þessari umræðu að fá einmitt fram afstöðu þingmanna Sjálfstfl., ekki hvað síst þeirra þingmanna sem lögðu fram á sínum tíma frv. um 49% eignaraðild erlendra aðila. Það væri athyglisvert ef fram kæmi í umræðunni, herra forseti, hvort þeir þingmenn Sjálfstfl., sem vildu ganga lengra en stjfrv. lagði til, gætu stutt þetta frv., eins og það er lagt fram, því á það má benda að einn viðkvæmasti þátturinn, sem varðar eignaraðild útlendinga að útgerðinni, er tekinn út úr. Hins vegar er ekki sett nein takmörkun á hvað erlendir aðilar mættu fjárfesta mikið í íslenskri fiskvinnslu. Flm. veltu því fyrir sér hvort eðlilegt væri að hafa einhverjar takmarkanir, kannski 50%, 49% þó bara væri um vinnsluþáttinn að ræða. Niðurstaða okkar varð sú að í sjálfu sér þjónaði það engum sérstökum tilgangi að setja slíkar takmarkanir. Við höfum fjölmörg dæmi einmitt um erlenda eignaraðild hér án þess að nokkuð annað hafi skapast af því en sóknarfæri fyrir íslenskt efnahagslíf bæði í formi atvinnu og aukinna útflutningstekna.

Herra forseti. Við flm. þessa frv. teljum að með þessari útfærslu, þ.e. að láta sömu reglur gilda um fiskiðnað og gildir um annan iðnað og aðra athafnastarfsemi hér á landi, sé þessu fundinn heppilegur farvegur, skynsamlegur farvegur sem býður upp á sóknarmöguleika fyrir íslenskan sjávarútveg. Það er ekki tekið á þeim þáttum sem snúa að útgerðinni og við erum þeirrar skoðunar að fjárfestingar erlendra aðila í fiskvinnslu hér á landi hafi í för með sér möguleika fyrir fiskvinnsluna að sækja fram í auknu samstarfi á erlendum vettvangi bæði hvað varðar sölu og vinnslu sjávarafurða.