Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:51:52 (1361)

1996-11-18 17:51:52# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:51]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli nálgast málið með opnum huga. Hann bendir réttilega á að lögin hafa ekki verið í gildi mjög lengi og að þau eru til skoðunar í ráðuneytinu og í nefnd. Því ber að fagna. Þó hann sé ekki reiðubúinn á þessum tímapunkti að gefa neinar yfirlýsingar um frekari breytingar, þá tel ég samt sem áður að hér sé skynsamlegt upplegg. Þessi hugmynd hefur verið rædd víða, eins og ráðherra gat um, m.a. í efh.- og viðskn. Við vitum að Íslendingar hafa fjárfest erlendis á undanförnum árum fyrir milljarða. Við getum líka verið sammála um þá skoðun að betra sé að fá inn erlent áhættufé til samstarfs í íslenskt atvinnulíf en erlent lánsfé og úr þessu geti skapast mikil sóknarfæri. Við vitum að alþjóðaviðskipti með sjávarafurðir eru að stóraukast og hafa verið að stóraukast á undanförnum árum. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að við megum ekki vera of varkár í breytingum á okkar löggjöf sem örva viðskipti og samstarf Íslendinga og útlendinga í atvinnulífinu. Allur heimurinn er á fleygiferð, einmitt í þessa átt, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. samvinna, fjárfesting milli landa. Hér er lagt upp með slíka útfærslu að ekki er á nokkurn hátt hægt að halda því fram að þetta geti kallað á einhverja misnotkun. Það er alls ekki í þessu tilfelli. Hér er um að ræða margvíslega sóknarmöguleika og ég kýs að skilja hæstv. ráðherra þannig að hann fylgist gaumgæfilega með því sem hin nýja lagasetning, eða frá því í vor, hefur í för með sér og sé reiðubúinn að skoða þau mál þegar koma fram fleiri rök og meiri reynsla varðandi þá þætti sem eru til umræðu.