Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:55:14 (1363)

1996-11-18 17:55:14# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:55]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist að ég og hæstv. viðskrh. séum á ýmsan hátt að tala svipað tungumál. Ég er þess fullviss að þegar sú endurskoðun sem hann boðaði eða ræddi um hefur farið fram verði vafalítið hægt að taka þessa hluti sem eru lagðir til í frv. til gagngerðrar skoðunar. Þetta frv. leggur upp með að koma í veg fyrir þá hugmyndafræði eða eins og hann orðaði það --- að erlendir fjárfestar fái nýtingarrétt í íslenskri lögsögu. Það má eiginlega segja að það sé akkúrat nálgunin við framsetningu frv. vegna þess að við tölum bara um fiskvinnsluþáttinn. Núverandi lagaákvæði mun eftir sem áður gilda hvað varðar útgerðarþáttinn og það er jú útgerðin sem fær veiðiheimildir hér á landi. Ég held að engin hætta sé á ferðum. Ég veit að ráðherra var ekki að tala um að frv. leiddi til þess heldur miklu frekar að undirstrika mikilvægi þess þáttar og því er frv. m.a. lagt upp á þennan hátt, þó svo að menn geti haft misjafnlega þungar áhyggjur af þátttöku útlendinga í útgerð. Látum það liggja á milli hluta. En eins og frv. er lagt fram, að mínu mati, herra forseti, þá ætti að geta skapast samstaða um þá efnisþætti sem þar er fjallað um.