Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:56:55 (1364)

1996-11-18 17:56:55# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:56]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja áfram máls á erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi. Ég get verið sammála hv. þm. Ágústi Einarssyni um það að umræða og þróun í þessari grein er íslensku efnahagslífi mjög mikilvæg og nauðsynlegt að fylgjast með á þeim sviðum. Ég fagna því einnig að hæstv. ráðherra er enn með nefnd í gangi sem mun fylgjast með þeirri þróun er á sér stað annars staðar í heiminum sem og þeirri umræðu sem fer fram á Íslandi.

Eins og hv. þm. kom inn á í framsöguræðu sinni voru ýmsir aðilar á síðasta þingi með hugmyndir um hvernig best mætti þróa sjávarútveginn í þá átt að erlendir aðilar kæmu sem best að rekstri hans. Ég var einn af þeim fjórum sjálfstæðismönnum sem fluttu lagafrv. um að heimila 49% erlenda fjárfestingu í sjávarútvegsfyrirtækjum. Var þá ekki undanskilin útgerð eða einhver sérstök grein sjávarútvegsins heldur var gert ráð fyrir að erlendir aðilar mættu eignast 49% í sjávarútvegsfyrirtækjum eins og þau kæmu fyrir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á síðustu árum hefur orðið gríðarleg samrunaþróun í sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem útgerð, fiskvinnsla, bræðslur og alls konar vinnsla í kringum sjávarútveg hefur þróast í einu og sama fyrirtækinu. Þau verða því sífellt fjölbreyttari og stærri með breiðari undirstöðu sem dregur úr sveifluáhrifum innan sjávarútvegsins og gerir þau almennt fýsilegri í augum fjárfesta á Íslandi. Tekist hefur með ágætum að sameina margs konar vinnslu innan eins sjávarútvegsfyrirtækis sem hefur leitt til mjög hækkandi verðs á fjármagnsmörkuðum á hlutabréfum í sjávarútvegsfyrirtækjum. Mér sýnist þróunin vera sú að þessi fyrirtæki stækki frekar en hitt. Ég tel að með því að heimila erlenda fjárfestingu einungis í fiskvinnslunni en ekki í útgerðinni séum við að kljúfa upp þessa þróun, sem er sannarlega mjög æskileg, þ.e. að breikka grundvöll sjávarútvegsins og fyrirtækja hans, og að það muni þýða veikari sjávarútvegsfyrirtæki og minna spennandi fyrirtæki fyrir fjárfesta almennt að koma nálægt. Þannig að ég er hræddur um að það verði ekki til þess að styrkja fyrirtæki. Við getum nefnt ýmis fyrirtæki eins og Harald Böðvarsson, Granda, fyrirtæki norður á Akureyri, sem er að hugsa sér að fara út á fjármagnsmarkaðinn, og mörg fleiri. Ég er alls ekki sannfærður um að frv. sem þetta mundi styrkja sjávarútveginn heldur gæti leitt til þess að áhugi fyrir honum mundi minnka. Við vitum að það sem skapar verðmæti í sjávarútvegsfyrirtækjum er að sjálfsögðu kvótinn. Og það mun hugsanlega freista erlendra aðila að geta komist eitthvað nær honum og þeir þröskuldar sem hafa verið hafa greinilega dugað til þess að erlendir aðilar hafa ekki áhuga á því að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Þó svo að þeir geti gert það með ýmsum hliðarráðstöfunum þá eru þær of flóknar.

[18:00]

Ég held því að miklu skynsamlegra sé að halda sig við þær aðferðir sem menn fóru að feta sig inn á á síðasta þingi, þ.e. að heimila í skrefum fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútveginum í heild. Ég tel óhætt að fara upp í 49% en að fara upp í 100% á einhverjum stigum og það í einu þrepi sé óráðlegt. Við megum nú ekki gleyma því að fiskvinnslan á stærsta hlutann í útgerðarfyrirtækjum og þar af leiðandi kvótann þannig að ég hugsa að það yrði mjög flókið ferli að skipta upp þessum fyrirtækjum aftur sem þegar hafa sameinast um rekstur margs konar sjávarútvegsvinnslu innan eins fyrirtækis. Ég er hræddur um að þetta mundi geta kallað á einhverjar ófyrirsjáanlegar fléttur sem ég held að mörgum finnist orðnar nógu margar í okkar útgerð nú þegar. Því tel ég að fyrir sjávarútveginn væri best að styrkja þá þróun sem þegar á sér stað, innan þess ramma sem er fyrir, og við stígum svo hin skrefin á sama hátt og við höfum þegar reynt að marka okkur stefnu um með frumvörpum þó ekki hafi náð fram að ganga. Eftir því sem mér heyrðist á hæstv. iðnrh. þá eru hugmyndir ráðuneytisins að breytast verulega. Ég skyldi hann sem svo að þar væru í skoðun alls konar hugmyndir sem við höfum ekki fengið að sjá enn þá en munum væntanlega sjá á þessu þingi í einhverju formi þó svo að það verði ekki í frumvarpsformi að svo stöddu.