Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 18:03:48 (1365)

1996-11-18 18:03:48# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:03]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru mér nokkur vonbrigði að hv. þm. Kristján Pálsson telji sig ekki geta lýst stuðningi við þetta frv. miðað við hvernig hann talaði um þætti málsins hér fyrir ári síðan. Það sem hann nefnir sem röksemd í þessu, sem ég er ekki sammála honum um, er að þetta muni veikja íslenskan sjávarútveg með því að aðskilja útgerð og vinnslu eins og hér er gert ráð fyrir. Það er einmitt það sem við gerum raunverulega ekki, þ.e. við skyldum ekki aðila til aðskilja veiðar og vinnslu því það gilda jú óbreytt lög um útgerðarþáttinn. Við erum hins vegar að bjóða upp á þann valkost, og þetta kemur skýrt fram í okkar geinargerð, að ef íslensk fyrirtæki vilja hafa samstarf við erlenda aðila, þá mega þau gera það fyrir opnum tjöldum og mundu þá stofna um það sérstakt fyrirtæki. Það eru eiginlega þau sóknarfæri sem við eru að tala um í frv. því þetta mun vafalítið leiða til þess að það yrðu samstarfsverkefni stofnuð hér á landi um fiskvinnslu, einhverja tiltekna fiskvinnslu í samstarfi við íslensk fyrirtæki. Það er engin hætta á því að erlendir aðilar komist að útgerðar- eða veiðiheimildaþættinum, en það eru svo mörg sóknarfæri. Og ég veit að hv. þm. gerir sér alveg fulla grein fyrir því að erlend eignaraðild, þó svo að takmörkuðu leyti yrði eða jafnvel full, mundi skapa mjög mikla möguleika einmitt í markaðsmálum á íslenskum sjávarafurðum. Og að verðmætasköpunin mundi verða hér á landi með þátttöku þessara erlendu aðila sem er mjög mikilvægt. Til allrar hamingju erum við nú ekki lengur að flytja út fiskvinnslu eins og við gerðum fyrir nokkrum árum, það er í takmörkuðum mæli sem slíkt á sér stað. Þessi útfærsla sem frv. leggur til mundi enn frekar styrkja íslenska fiskvinnslu þó svo að ég geti alveg verið sammála hv. þm. að ég er ekkert sérstaklega með miklar áhyggjur af því þó útlendingar ættu í íslenskri útgerð enda lögðum við það til í fyrra. En með þessu væri hægt að stíga skref sem gæti skapast kannski betri samstaða um heldur en aðrar útfærslur.