Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 13:53:52 (1369)

1996-11-19 13:53:52# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[13:53]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það að rétt hefði verið að ræða þessi tvö frv. saman. En það er mikið aðgæsluleysi hjá hæstv. félmrh. að fara ekki fram á það á eðlilegum tíma. (Félmrh.: Ég var búinn að því.) Það hafði ekki komið fram svo að mér væri kunnugt um.

Herra forseti. Ég vil svo sannarlega taka undir með hæstv. félmrh. að atvinnuleysið er böl. Svo sannarlega er það böl. Og ég trúi því og treysti að þessi tvö frv. séu til bóta. En að sjálfsögðu þarf að fara fram nákvæm vinna við þessi frv. Það sem ég hnýt um strax og finnst ástæða til að nýta þetta umræðuform til að spyrja um er 1. töluliður í 2. gr. þar sem mjög alvarleg breyting er á ferðinni. Hún lýtur að hækkuðum aldursmörkum til atvinnuleysisbótaréttar úr 16 árum í 18 ár. Ég spyr: Eru menn að leggja til að hækka skólaskyldualdur úr 16 ára aldursmörkunum í 18 ár? Hvers eiga þeir að gjalda sem vilja hvíla sig á námi eða eru ekki í stakk búnir til að halda áfram námi? Hvernig ætla menn að fara með þessi atriði? Mér nægir ekki að þar sé tekið svo á að um þessi mál verði sérstaklega fjallað af úthlutunarnefndum. Ég held að þarna sé mjög varasamur hlutur á ferðinni og ég held að menn þurfi að gá vel að sér. Ég bið hv. félmn. að skoða þetta atriði mjög vel.