Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 16:15:01 (1386)

1996-11-19 16:15:01# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:15]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykn. fyrir þessa ræðu því hann var formaður í nefndinni sem samdi frv. Satt að segja hefði ég viljað spyrja hann að því í fyrsta lagi, sem kom ekki fram í máli hans, hvað er gott í frv. fyrir hinn atvinnulausa. Það er eiginlega alveg nauðsynlegt að vita það hvaða skoðun formaður nefndarinnar hefur á því máli því ekki hækka atvinnuleysisbæturnar sem eru þó svínslega lágar eins og hann viðurkenndi. Það er verið að lækka atvinnuleysisbætur. Eins og kom fram kom í ræðu hv. þm., Ögmundar Jónassonar, þá sýnist mér að það sé verið að lækka atvinnuleysisbætur einhvers staðar á bilinu 5--10% þegar um lágmarkskauptaxta er að ræða, t.d. taxtann sem er núna lægstur talinn og er rétt liðlega 49 þús. kr. á mánuði. Þetta fólk gæti í dag, eins og staðan er eftir því hvað virkir dagar eru margir í mánuðinum, verið með um 51 til 53 þús. kr. en það er verið að lækka þetta kaup. Og hv. þm. og hæstv. ráðherra, ef hann væri hér, skulda þinginu skilagrein á því hvernig stendur á því að það er verið að lækka þetta kaup hjá þeim allra allra lægstu á Íslandi. Hvaða efnahagslegu, félagslegu og pólitísku rök eru fyrir því að það verði að lækka kaupið hjá þessu fólki? Það verður að svara því. Hvaða brýna nauðsyn ber til að lækka einmitt þetta fólk í kaupi?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. hver er afstaða einstakra aðila til þessa frv. úti í þjóðfélaginu sem komu þó nærri málinu. Var fjallað um það í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs? Var fjallað um það á vegum sveitarfélaganna að það er í raun og veru verið að taka vinnumiðlunarmálin af þeim? Þetta nefni ég sérstaklega að því varðar t.d. Reykjavík þar sem menn hafa verið að byggja upp mjög virka vinnumiðlun á vegum sveitarfélagsins. Var haft samráð eða rætt við fulltrúa borgarstjórnar Reykjavíkur og/eða annarra sveitarfélaga áður en þetta frv. var hér lagt fyrir?