Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 16:19:10 (1388)

1996-11-19 16:19:10# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:19]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fór því miður eins og mig grunaði að það eru engin svör til við þeim spurningum sem ég bar fram áðan vegna þess að afstaða þeirra aðila sem ég spurði um liggur ekki fyrir þó það hafi kannski verið rætt við þá á einhverju stigi málsins. Og það sem verra er þá komu ekki fram svör við þeirri spurningu hvaða nauðsyn rak formann nefndarinnar og ríkisstjórnina til þess að lækka kaup atvinnuleysingja á Íslandi. Hvaða nauðsyn rak nefndina til þess að gera tillögu um það með þeim hætti sem hér liggur fyrir? Og að lokum, hæstv. forseti, sem er nauðsynlegt að nefna við hv. þm. líka því hann kemur einnig að því sviði, hvaða skýring er á því að sama ríkisstjórn og leggur til að 16 til 18 ára unglingum sem af einhverjum ástæðum hafa hrökklast út úr skóla og inn á vinnumarkað, sem getur svo ekki tekið við þeim, er ætlað að fara aftur í skóla vegna þess að það sé útilokað fyrir þá að komast inn í þetta atvinnuleysisbótakerfi? Skóla sem hv. þm. gerir tillögu um að skera niður fjármuni til á því sama þingi og í þeim sama mánuði og við erum að fjalla um þessi mál. Það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að þingmenn stjórnarflokkanna sem taka að sér að bera ábyrgð á þessari ríkisstjórn reyni að setja hlutina upp í eitthvert rökrænt samhengi. Það gengur ekki að líða það að menn komi hér með frv. af þessu tagi sem gerir ráð fyrir því að henda unga fólkinu út úr atvinnuleysisbótaréttindakerfinu, því sama unga fólki og sömu menn eru að henda út úr skólunum í landinu.