Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 17:09:11 (1397)

1996-11-19 17:09:11# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðlegi forseti. Í fyrri ræðu minni vék ég að nefndarstarfi sem fram fór á árinu 1994 og skýrslu um þjónustu- og öryggiskerfi atvinnulausra sem lögð var fram í lok þess nefndarstarfs. Ég átti sæti í þessari nefnd og vil reyndar láta það koma fram að aðstæður höguðu því þannig að ég átti ekki þátt í lokaniðurstöðu nefndarinnar og sat ekki í nefndinni undir lokin.

Ég hef gagnrýnt að miklar skerðingar séu í frv. sem hér er til umræðu. Það sé óvissa um hvað tekur við hjá þeim sem lendi utan við kerfið vegna þeirra nýju ákvæða sem nú eru sett í lög. Hvað gerist hjá þeim sem missa rétt? Vegna þeirrar gagnrýni vil ég gjarnan, virðulegi forseti, nota tækifærið og benda á þýðingarmikil atriði í þeirri skýrslu sem ég hef vísað til. Ég hefði talið að sú nefnd sem hv. þm. Hjálmar Árnason sat í hlyti að hafa tekið þá skýrslu til gagngerrar skoðunar og reynt að nýta þær hugmyndir sem fram komu í henni vegna þess að sú nefnd var búin að eiga viðtöl við fjöldann allan af aðilum sem þekkingu hafa á því vandamáli sem hér er til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að vísa nokkuð til þessa nefndarstarfs. Ég tek fram að niðurstaða nefndarinnar varð sú að heildarendurskoðun yrði að gera á lögunum þar sem lögin, sem við höfum stuðst við fram að þessu, gera einungis ráð fyrir atvinnuleysi til skamms tíma. Líka var talið mjög mikilvægt að gera nauðsynlegar breytingar á núgildandi lögum um vinnumiðlun vegna þess að hvor lögin um sig styðja við hin og gott samræmi þarf að vera á milli þessara laga.

Ég ætla að telja upp nokkur atriði í þeim köflum sem mér finnst mikilvægt að komi fram hvaða hugmyndir nefndin var með. Helstu niðurstöður starfshópsins voru t.d. þessar:

,,Starfshópurinn telur auk þessa nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um atvinnulausa á Íslandi í dag, afmarka betur hóp atvinnulausra, greina hann upp í smærri hópa og leita úrræða fyrir hvern hóp fyrir sig.``

Ég spyr: Hafði nefndin þetta að leiðarljósi? Var reynt að skoða þessa hópa, skoða hve ólíkar þarfir hinna einstöku hópa yrðu og setja fram hugmyndir þar að lútandi? Hafi það verið gert skilar það sér illa í framsetningu þessa frv.

,,Sníða af annmarka á reglum um meðlagsgreiðslur þannig að þær virki ekki atvinnuletjandi. Samtímatengja reglur um barnabætur, barnabótaauka og vaxtabætur og auka möguleika sveitarfélaga á eftirgjöf opinberra gjalda til handa atvinnulausum.``

Það blandast engum hugur um að slíkar aðgerðir væru mjög þýðingarmiklar fyrir langtímaatvinnulausa sem eru að burðast við að standa skil á öllu því sem að þeim stefnir, t.d. barnabætur, barnabótaauki, vaxtabætur, allt eru þetta opinber framlög sem koma kannski ári síðar í hendur hins atvinnulausa.

,,Að sveitarfélög setji sér öll reglur um fjárhagsaðstoð sem nægi til framfærslu.``

Ég hlýt að spyrja hæstv. félmrh.: Hefur hann beitt sér fyrir því á þessu rúma einu og hálfu ári, sem hann hefur verið í þessum stól og þar sem hann hefur væntanlega fylgst með þessu nefndarstarfi, að þetta gerist? Að það öryggisnet sem á að taka við þegar menn eru settir út úr bótakerfinu sé virkt.

,,Að stórauka menntun til handa atvinnulausu fólki, sérstaklega ungu fólki, sem hefur litla skólagöngu að baki. Enn fremur endurskipuleggja átaksverkefni sveitarfélaga og koma á markvissri starfsþjálfun fyrir atvinnulausa og koma á frumkvöðlastyrkjum og efla starfsmenntun.``

Auðvitað þekki ég sumt af þessu í frv. en annað skortir átakanlega.

,,Efla skilvirkni í framkvæmd atvinnuleysisbótakerfisins.``

Við áttum viðræður við Sigurð Snævarr hagfræðing sem vann ákveðna úttekt fyrir starfshópinn og ég ætla líka að fara yfir sex punkta sem eru nokkurs konar yfirlit yfir það sem hann nefndi.

,,Atvinnuleysisbætur skera sig úr. Þær miðast við tiltekinn umsaminn launaflokk en taka hvorki mið af tekjum þess sem missir vinnu né framfærslubyrði nema að litlu leyti. Samspil atvinnuleysisbóta og meðlagsgreiðslna kann að virka atvinnuletjandi [aftur tekið þarna fram] þar sem meðlag er ekki tekið af bótum og skuld safnast upp. Gefa þyrfti út reglur um innheimtu meðlagsskulda hjá þeim sem hafa verið atvinnulausir.``

Nú má spyrja hæstv. félmrh. Ég þekki að sjálfsögðu þau heimildarlög sem sett voru síðasta vetur varðandi meðlagsskuldir. En hefur hann beitt sér á einhvern hátt fyrir því hvernig farið sé með meðlagsskuldir hjá atvinnulausum?

,,Huga þarf að samspili atvinnuleysisbóta og tekjutengdra bóta með tilliti til framfærslu þannig að bæturnar séu ekki vinnuletjandi. Skattalegar bætur, svo sem barnabætur, barnabótaauka og vaxtabætur þarf að greiða strax svo þær geti komið hinum atvinnulausa til góða þegar á því ári sem hann er atvinnulaus en ekki eftir á, ári síðar eins og nú er. Meðaltekjur lækka um 56,7 þús. kr. á mánuði, [þetta er árið 1994] eða um 42%, ráðstöfunartekjur um 29,6% við það að verða atvinnulaus. Mjög er mismunandi eftir stéttum og tekjum hversu mikil tekjurýrnun fylgir atvinnuleysi. Þegar litið er til áhrifa atvinnumissis á afkomu hjóna skiptir sköpum hverjar atvinnutekjur maka eru.``

[17:15]

Þetta eru áminningar og helstu punktar þó að sjálfsögðu sé farið inn á mjög marga ólíka þætti í greinargerð Sigurðar Snævarrs. Sú spurning er sett fram í skýrslunni: Hvernig má tryggju betur framfærslumöguleika langvarandi atvinnulausra? Þar er nefnt t.d. að bregðast strax við tekjuskerðingu og flýta tekjutengdum greiðslum, vaxtabótum og barnabótum og taka strax tillit til breyttra forsendna hjá atvinnulausum. Hægt væri að rýmka heimildir atvinnulausra til að nýta sér ónýttan persónuafslátt í staðgreiðslukerfi skatta frá því sem nú er. Hægt yrði að opna möguleika á eftirgjöf fasteignagjalda eins og nú er um elli- og örorkulífeyrisþega með breytingu á lögum. Ekkert af þessum úrræðum sem mundu verða mjög virk hjá fjölskyldum atvinnulausra er að finna í þeim tillögum sem eru settar fram.

Varðandi tilboð um skólavist og af því að ég er mjög fylgjandi öllu sem lýtur að eflingu fræðsluþáttarins, ekki eingöngu fyrir atvinnulausa, heldur almennt í atvinnulífinu hljótum við að koma inn á það í fylgifrv. og líka það sem hjá Norðurlöndunum hefur verið kallað ,,livslanglæring`` og er nú erfitt að þýða. Það er í raun og veru yfirlýsing um nauðsyn þess að þeir sem eru á vinnumarkaði séu sífellt að bæta við þekkingu sína, sífellt að halda við þekkingu og afla sér fræðslu og þekkingar í gegnum skólakerfi, námskeið og starfsmenntun. Í þessari skýrslu var m.a. gerð tillaga um að Atvinnuleysistryggingasjóður gæti heimilað að einstaklingur stundaði nám á atvinnuleysisbótum enda mæli ráðgjafi með því. Hér væri ekki um almennan rétt að ræða heldur sérstaka samþykkt stjórnar sjóðsins. Reyndar náðist ekki alhliða samstaða um þessa tillögu vegna þess að sumir nefndarmenn töldu það ekki hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að sjá um svo víðtæka menntun. En menn voru uppteknir af því að einstaklingar gætu verið í þeirri stöðu að leita yrði sértækra ráða til að viðkomandi gæti verið í námi með sérstakan stuðning.

,,Að sveitarfélög styrki bótaréttarlaust ungt fólk sem ekki hefur lokið formlegri skólagöngu til náms ef til vill með þeim hætti að það sé ráðið til náms og á námstímanum afli það sér því atvinnuleysisbótaréttar.`` Hugsanlegt væri að rétturinn til bóta færi stighækkandi samtímis náminu. ,,Að sveitarfélög og Atvinnuleysistryggingasjóður móti samstarfsform sín á milli um tíu mánaða starfsreynslubrautir fyrir atvinnulaust ungt fólk með tiltekinn lágmarks atvinnuleysistíma að baki.``

Það er alveg ljóst að í þessu nefndarstarfi gerðu menn sér grein fyrir mikilvægi þess að samspil væri á milli þeirra aðila sem ættu að koma að vanda hins atvinnulausa. Talað er um að fyrir fram verði að móta samstarfsform og að aðilar komi sér saman um hvað sé hægt að gera. En í frv. sem við erum að fjalla um er eingöngu talað um réttinn. Réttinum lýkur, fólk missir réttinn og þá fer það annað. Það er mikill hugmyndafræðilegur mismunur á þessu tvennu.

Virðulegi forseti. Nú er að ljúka þeim tíma sem ég hef til umráða í síðari ræðu minni en ég ætla aðeins að nefna eitt. Eftirfarandi spurning var lögð fram: Hverjir ættu fremur að vera á öðrum bótum en atvinnuleysisbótum? Starfshópurinn lagði til að örorkuhugtak almannatryggingalaganna yrði endurskoðað hið allra fyrsta. En ekkert bólar á því, í þeim tillögum sem eru kynntar í dag, að slík endurskoðun hafi verið sett í gang.