Flugskóli Íslands hf.

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:55:48 (1430)

1996-11-19 19:55:48# 121. lþ. 27.12 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:55]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv. er endurflutt. Samgn. sendi frv. á sl. vori til umsagnar og í framhaldi af því tók ráðuneytið þær umsagnir sem bárust til athugunar og má segja að frv. sé árangur af þeirri vinnu og er það unnið í samráði við lögfræðing Flugmálastjórnar og flugmálastjóra.

Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að kostir hlutafélagsformsins séu verulegir umfram ríkisrekstur á þessu sviði. Þar sem loftferðaeftirlit Flugmálastjórnar hefur eftirlit með flugskólum samkvæmt reglugerð og Flugmálastjórn fer með framkvæmd og umsjón prófa og útgáfu atvinnuskírteina er talið rétt að höggva á þau nánu rekstrarlegu tengsl sem verið hafa milli Flugmálastjórnar og skólans með stofnun hlutafélags um Flugskóla Íslands.

Annars staðar á Norðurlöndunum hafa ríkisreknir flugskólar ýmist verið lagðir niður eða yfirteknir af einkaaðilum eða her viðkomandi ríkja, nema í Noregi þar sem er ríkisrekinn flugskóli fyrir atvinnuflugmenn, en áform eru uppi um að leggja hann niður.

Þetta frv. er þingmönnum kunnugt og ástæðulaust að hafa fleiri orð um það. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.